Sport

Ætla að verja titilinn

Meistarar meistaranna í kvennaflokki í körfuknattleik, fer fram í dag kl. 17 í Sláturhúsinu í Keflavík. Þar etja heimastúlkur kappi við KR úr Vesturbænum. Hefðin er sú að bikarmeistarar síðasta tímabils leiki við núverandi Íslandsmeistara en þar sem Keflavík er tvöfaldur meistari kemur það í hlut silfurhafans í bikarkeppninni að taka þátt í þessum úrslitaleik. Af þeim níu skiptum, sem Meistarakeppnin hefur verið haldin, hafa Keflvíkingar unnið fjórum sinnum og undanfarin fjögur ár hefur titillinn í þrígang farið til Keflavíkurliðsins. Ólíkt tímabilinu í fyrra, eru Keflavíkurstúlkur með bandarískan leikmann í sínum röðum. Hún heitir Reshea Bristol og að sögn Sverris Þórs Sverrissonar, þjálfara Keflavíkur, fellur hún vel inn í liðið. "Hún lék með okkur á móti í Danmörku og stóð sig vel þar. Hún gerir leikmennina í kringum sig betri," sagði Sverrir og bætti því við að hann hefði úr miklu að moða í vetur. "Ég er með ungar stelpur í bland við eldri reynslubolta og þær eru alltaf tilbúnar að hlaupa allar þær mínútur sem ég gef þeim. Ég geri þær kröfur að stelpurnar mæti tilbúnar og taki vel á þeim, því KR gefur okkur ekki neitt. Þær mæta grimmar líka þannig að við þurfum á öllu að halda í dag." Birna Valgarðsdóttir, fyrirliði Keflavíkur, meiddist á æfingu fyrir skömmu en Sverrir átti von á að hún yrði með í dag. "Það átti jafnvel að hlúa að meiðslunum eftir að leikurinn er afstaðinn, það verður bara að koma í ljós hvernig þetta verður." Georgía Olga Kristiansen, einn af leikmönnum KR, sagði Vesturbæjarliðið stefna á alla titla sem væru í boði og því mikilvægt að mæta ákveðnar til leiks. "Við misstum besta leikmann tímabilsins í fyrra, Hildi Sigurðardóttir, í atvinnumennsku til Svíþjóðar. En það er bara skemmtileg áskorun og setur meiri pressu á okkur hinar að standa okkur. Við ætlum okkur að vinna þær í leiknum í dag," sagði Georgía.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×