Innlent

Engar undanþágur

Þremur nýjum umsóknum til undanþágunefndar kennara og sveitarfélaganna var hafnað í gær. Sjö öðrum beiðnum var frestað af mismunandi ástæðum, segir Sigurður Óli Kolbeinsson lögfræðingur sem situr í nefndinni fyrir sveitarfélögin. Umsóknum Safamýrarskóla og Öskjuhlíðarskóla var meðal þeirra fjögurra sem frestað var til vikuloka. Einar Hólm Ólafsson, skólastjóri Öskjuhlíðarskóla, segir það vonbrigði. Frestunin hafi ekki komið sér á óvart. "Það lá í loftinu að verkfallsstjórnin ætlaði að endurskoða hlutina fram undir næstu helgi. Þá gat maður getið sér til að beðið væri eftir niðurstöðu samningafundarins á fimmtudag," segir Einar. Sigurður segir að tveimur umsóknum hafi verið frestað því fulltrúi kennara hafi viljað lengri umþóttunartíma og einni þar sem upplýsingar vantaði. Fjórum beiðnum, sem allar voru endurteknar eða ítrekaðar beiðnir, hafi hins vegar verið frestað til vikuloka í von kennara um að verkfallið leysist. Einar segir undanþáguumsóknina hafa verið víðtækari nú en í fyrra skiptið: "Ég óskaði eftir því í umsókn minni nú að litið væri heildstætt á aðstæður nemendanna og fjölskyldna þeirra. Þegar rætt er um neyðarástand tel ég að við getum öll verið sammála um að neyðin brennur á foreldrunum og systkinunum. Það er ekki bara hinn fatlaði sem líður fyrir verkfallið. Það er miklu stærri hópur." Einar segir að í verkfalli kennara árið 1995 hafi undanþága fengist fyrir einhverfa nemendur skólans. Hann hafi þó ekki hugsað sér að sækja aðeins um undanþágu fyrir hluta nemenda skólans verði umsókninni hafnað í vikulok. "Verkfallið bitnar mjög illa á börnum með einhverfu. En það bitnar einnig illa á mörgum öðrum nemendum sem eru alvarlega þroskaheftir en hafa ekki greinst með einhverfu," segir Einar: "Sinna þarf börnunum mjög mikið. Kennsluúrræði fyrir þau eru mjög sérhæfð." Sigurður segir að ekki hafi verið um mörg börn að ræða í þeim undanþágubeiðnum sem hafi verið hafnað. Kennslubeiðnirnar hafi helst verið fyrir einhverf börn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×