Sport

Willum Þór lýkur keppni

Willum Þór Þórsson mun ekki þjálfa lið KR áfram í Landsbankadeild karla í knattspyrnu en þetta var ákveðið á fundi stjórnar KR-sports í gær. Willum Þór var að klára sitt þriðja tímabil með KR í sumar. Fyrstu tvö árin skilaði hann Íslandsmeistaratitli í Vesturbæinn en í sumar gekk allt á afturfótunum hjá liðinu. KR-liðið komst aldrei í gang í sumar. Missti fljótt af lestinni í deildinni, datt út úr bikarnum í átta liða úrslitum gegn FH og framganga liðsins í Evrópukeppninni var ekkert til að hrópa húrra fyrir en KR féll á klaufalegan hátt úr leik gegn írska félaginu Shelbourne. Þessi árangur er langt frá væntinum KR-inga, sem ætluðu sér Íslandsmeistaratitilinn sem og að komast lengra en áður í Evrópukeppninni. Því komu fréttirnar í gær ekki mikið á óvart. Endurskoðunarákvæði var í samningi Willums og KR þar sem báðir aðilar höfðu útgönguleið og þetta ákvæði nýtti stjórn KR sér. „Það er ekkert launungarmál að við erum í þessu til að vinna en það gekk ekki eftir að þessu sinni,“ sagði Jónas Kristinsson, formaður KR-Sports, í samtali við Fréttablaðið í gær. „Við í KR erum mjög kröfuharðir og kannski erum við stundum of kröfuharðir. Ég veit það ekki. Það var engu að síður ákvörðun stjórnar að það væri best fyrir félagið á þessum tímapunkti að skipta um þjálfara.“ KR-ingar eru ekki byrjaðir að leita að nýjum þjálfara en Guðjón Þórðarson og Magnús Gylfason, þjálfari ÍBV, hafa sterklega verið nefndir í því sambandi. „Við vitum vel hvaða nöfn eru í gangi og við munum kíkja á það. Einnig kemur til greina að fá erlendan þjálfara til félagsins. Við munum skoða ýmsa möguleika,“ sagði Jónas, en það er mikil vinna fram undan hjá stjórn KR enda þarf að finna nýjan þjálfara og svo er stór hópur af leikmönnum hjá félaginu með lausan samning. „Það er vissulega mikil vinna fram undan og við verðum að vanda til verka. Ég vil ekkert segja til um það að svo komnu máli hverjum við ætlum að bjóða nýjan samning en það verður allt skoðað á næstu dögum.“ henry@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×