Innlent

Sagðist hrædd við sakborninga

Sautján ára drengur vitnaði í gær gegn Stefáni Loga Sívarssyni sem er ákærður fyrir þrjár líkamsárásir. Drengurinn sagði Stefán Loga hafa ógnað sér með öxi skömmu áður en líkamsmeiðingarnar hófust. Stúlka sem bar vitni í málinu var mjög hrædd við Stefán Loga og annan mann sem einnig er ákærður fyrir tvær árásanna. Hennar ósk var að þeir viku úr dómsal á meðan hún bæri vitni. Líkamsárásirnar sem Stefán Logi er ákærður fyrir voru framdar á tveimur dögum í byrjun apríl síðastliðinn. Á þeim tíma var Stefán Logi nýkominn úr fangelsi og var á reynslulausn. Eftir fyrstu líkamsárásina fór lögreglan í Reykjavík fram á gæsluvarðhald yfir Stefáni. Dómari hafnaði gæsluvarðhaldsbeiðninni og Stefáni var sleppt lausum. "Hann náði í risaöxi fyrir aftan sófann og ógnaði mér. Þetta leit út eins og grín en ég veit hvað hann hefur gert í fortíðinni og vissi ekki hvað ég ætti að gera," sagði sautján ára piltur sem vitnaði gegn Stefáni fyrir dómi í gær. Síðan sagði hann Stefán hafa tekið um axlirnar á sér og sagst ætla að henda honum fram af svölunum. Hann hafi reynt að rífa sig lausan frá Stefáni og þá hafi augu hans orðið brjálæðisleg. Stefán hafi slegið hann á kjaftinn og aftur í magann eftir að hann féll á sófann. Að lokum segir hann Stefán hafa sparkað í magann á sér þar sem hann lá í gólfinu. Árásin átti sér stað á heimili Stefáns Loga þar sem þeir tveir og annar maður voru að neyta fíkniefna. Drengurinn hlaut við árásina lífshættuleg innvortis meiðsl. Drengurinn býr nú í Bandaríkjunum. Rúmlega tvítug stúlka sem Stefán og annar maður eru sakaðir um að hafa beitt líkamlegu ofbeldi mætti sem vitni fyrir réttinn. Hún sagði Stefán Loga ekki hafa gert sér neitt heldur hefði hinn maðurinn slegið hana nokkrum sinnum. Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði hún Stefán hins vegar hafa ráðist á sig. Auk þess báru tvær konur vitni um að hafa séð Stefán beita hana ofbeldi. Stefán hlaut tveggja ára fangelsisdóm fyrir líkamsárás árið 2002 á heimili sínu á Skeljagranda, auk annarrar líkamsárásar sem hann framdi sama dag. Gæsluvarðhald yfir Stefáni rennur út þann sjötta október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×