Sport

NHL-leikmenn til Svíþjóðar

Útlitið er ekki bjart hjá íshokkíunnendum þessa dagana því nú vofir yfir verkfall í NHL-deildinni vegna deilu milli eigenda og leikmanna. Eigendur vilja lækka laun leikmanna sinna en þeir síðarnefndu eru ekkert á þeim buxunum að þynna launaumslag sitt. Verkfall er því óhjákvæmilegt og hafa nokkrir sænskir leikmenn brugðið á það ráð að snúa til Svíþjóðar og leika íshokkí í heimalandinu. Einn af þeim er Peter Forsberg, fyrrum leikmaður Colorado Avalance. Forsberg er einn af bestu leikmönnum heims og var m.a. valinn besti leikmaður NHL árið 2002. Hann hefur gert eins árs samning við Modo Hockey í Svíþjóð og segir frábært að gamall draumur sé að verða að veruleika. "Ég fullyrti á sínum tíma mig langaði að spila í sænsku deildinni á nýjan leik" sagði Forsberg. "Nú er sá draumur að rætast". Sænskir íshokkíspekúlantar eru sannfærðir um að lið Modo verði meistari enda sjö leikmenn frá NHL á mála hjá félaginu. Þess ber svo að geta að Kent Forsberg, faðir Peters, verður þjálfari liðsins í vetur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×