Sport

Keflavík stóð sig vel úti

Kvennalið Keflavíkur í körfubolta gerði góða ferð til Kaupmannahafnar um helgina þar sem liðið endaði í 2. sæti á æfingamóti og vann alls fjóra af fimm leikjum sínum í ferðinni. Keflavík tapaði fyrir dönsku meisturunum Hörsholm, 42-71, en þetta er eitt allra sterkasta félagslið landsins með þrjá bestu leikmenn Danmerkur. Hinir leikirnir unnust, tveir gegn danska liðinu Sisu og síðan vann Keflavík sænska liðið Lobas. Þá lék liðið að nýju við Hörsholm sem spilaði reyndar þann leik án sinna sterkustu leikmanna. Gefur þetta Keflavíkurstúlkum byr undir báða vængi fyrir komandi tímabil í 1. deild kvenna. Sverrir Þór Sverrisson, er tekinn við þjálfun Keflavíkurliðsins sem vann alla fimm titla í boði í fyrravetur en liðið er nokkuð breytt í vetur. Sverrir Þór var sáttur með mótið í Köben og sagði ferðina spila stóra rullu í undirbúningnum. "Við fengum hörkuleiki" sagði Sverrir. "Það var mjög gaman að fá að keppa við sterk lið frá öðrum löndum. Ég held að þetta skilji helling eftir sig í reynslubankanum hjá stelpunum og sömuleiðis hjá mér" sagði þjálfarinn knái. Sverrir fullyrti að hann hafi auðgað hugmyndaflugið í ferðinni. "Svo kynntist ég liðinu betur og fékk fleiri hugmyndir varðandi liðið. Við spiluðum 5 leiki á fjórum dögum, mikil törn. Árangurinn, fjórir sigrar og eitt tap, er mjög góður að mínu mati". Birna Valgarðsdóttir, fyrirliði Keflavíkur, meiddist stuttu fyrir ferðina og lék aðeins með í lokaleikhlutanum í síðasta leiknum. "Við tókum smá áhættu í þeim leik með því að setja hana inn á í fjórða leikhluta. Það gaf góða raun því hún kom sterk inn og við unnum með þremur stigum". Að sögn Sverris mun liðið taka sér smá hlé meðan á Meistaramóti Norðurlanda stendur en þar etja Keflavíkurmenn kappi. "Eftir tvær vikur eru Meistarar meistaranna og þá fer veturinn í gang fyrir alvöru" sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×