Sport

Aldrei möguleiki hjá Valsstúlkum

Valur hafði lítið í sterkt lið Önnereds HK frá Svíþjóð að gera í seinni leik liðanna í Evrópukeppni félagsliða að Hlíðarenda. Úrslitin urðu 35-24 Svíunum í vil og 65-50 samanlagt í báðum leikjum. Eftir hagstæð úrslit í fyrri leik liðanna í Gautaborg gerðu Valskonur sér vonir um að komast áfram með góðum leik á heimavelli. Það kom hins vegar í ljós að þó nokkur styrkleikamunur er á liðunum. Önnered náði undirtökunum strax í upphafi og leiddi mestallan tímann. Eftir 15 mínútur var staðan orðin 4-9 og þar með var nokkuð ljóst að Valur væri ekki á leið áfram í keppninni. Valskonur stöppuðu í sig stálinu og minnkuðu muninn fyrir hlé þar sem staðan var 12-14. Valur byrjaði seinni hálfleikinn hreint hræðilega og Svíarnir skoruðu átta fyrstu mörkin, voru síðan ekkert á því að slaka á og komust mest 14 mörkum yfir áður en yfir lauk. Það mátti sjá á varnarleik Önnered að þær höfðu unnið heimavinnu sína vel, þær komust inn í margar sendingar hjá Val og það skilaði sér í fjölmörgum hraðaupphlaupum. Valskonur áttu fá svör í vörninni en hefðu mátt láta Svíana hafa meira fyrir sínum mörkum, sem flest komu úr opnum færum þar sem þær voru einar á móti markverði. Berglind í markinu gat lítið gert við öllum þessum mörkum en varði meirihlutann af langskotunum og það var ekki fyrr en 11 mínútur voru eftir að Svíarnir skoruðu með langskoti. ,,Þær gáfu bara í allt annan gír í dag eins og þær hafi verið að spara sig þarna úti. Þær spiluðu miklu hraðar í dag og voru miklu léttari á sér en úti. Við ætluðum að keyra á þær en dæmið snerist eiginlega við og þær skoruðu meira en helminginn af mörkunum úr hraðaupphlaupum sem reyndist okkur mjög dýrkeypt. Við vissum að þær væru stærri en við og líkamlega sterkari og ætluðum að vera sneggri og klókari en það gekk mjög lítið hjá okkur í dag,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir, fyrirliði Vals, í leikslok. Mörk Vals: Ágústa Edda Björnsdóttir 7/3, Kolbrún Franklín 5/2, Hafrún Kristjánsdóttir 3, Sigurlaug Rúnarsdóttir 3, Díana Guðjónsdóttir 2/1, Arna Grímsdóttir 1, Katrín Andrésdóttir 1, Árný Ísberg 1, Gerður Beta Jóhannsdóttir 1. Varin skot: Berglind Íris Hansdóttir 13/1.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×