Sport

Eriksson styður þagnarbindindi

Sven Göran Eriksson, landsliðsþjálfari enska knattspyrnulandsliðsins hefur lýst yfir stuðningi við þá ákvörðun leikmanna sinna að sniðganga fjölmiðla í kjölfar 2-1 sigurs á Pólverjum í gærkvöld. Ákvörðun leikmannanna er tilkomin vegna harkalegra árása enskra fjölmiðla á markmann enska liðsins, David James, vegna mistaka hans í leiknum við Austurríki á laugardaginn. Eriksson segist ánægður með að leikmennirnir standi saman allir sem einn, þetta sé þeirra ákvörðun og hana beri að virða. Talið er að kornið sem hafi fyllt mælinn hjá landsliðsmönnunum ensku, hafi verið skoðanakönnun sem birtist í einu ensku blaðanna, þar sem spurt var hvort lesendur vildu frekar sjá apa en James í markinu og 95% lesenda kváðust vilja apann. Terry Butcher, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins er ósammála Eriksson og segir ákvörðun landsliðsmannanna ranga. Hann segir gagnrýni fjölmiðla hafa snúist um frammistöðu leikmanna og þeir verði að geta tekið henni. Væri hann sjálfur leikmaður hefði hann þakkað fjölmiðlum gagnrýnina, enda hafi hún virkað sem vítamínsprauta á liðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×