Sport

Sigurmark Ungverja á 90. mínútu

Íslenska U-21 árs liðið í knattspyrnu tapaði í gær fyrir Ungverjum í undan-keppni Evrópumótsins. Íslenska liðið stóð sig frábærlega en það lék einum færra drjúgan hluta leiksins. Ungverjarn-ir skoruðu þegar fimm sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma og þrátt fyrir hetjulega baráttu náðu strákarnir okkar ekki að jafna. Það var vitað fyrir leik að það yrði á brattann að sækja fyrir íslenska liðið í gær enda höfðu tíu leikmenn átt við magakveisu að stríða og voru varla búnir að jafna sig áður en flautað var til leiks. Vegna veikindanna náði liðið aðeins að æfa einu sinni í Ungverjalandi og það munar um minna. Ungverjarnir byrjuðu leikinn betur en náðu ekki að skapa sér nein teljandi færi. Íslenska liðið varð síðan fyrir áfalli þegar Gunnar Þór Gunnarsson var rekinn af velli þegar hann fékk að líta sitt annað gula spjald á stuttum tíma. Íslensku strákarnir gáfust síður en svo upp heldur þjöppuðu sér saman og börðust af krafti. Þeir náðu að skapa sér nokkur færi en tókst ekki að nýta þau sem skildi. Ungverjarnir misstu mann út af þegar um 60 mínútur voru liðnar en það breytti litlu. Þegar skammt var til leiksloka virtust flestir vera búnir að sætta sig við markalaust jafntefli. Ungverjarnir komust hins vegar í sókn og á klaufalegan hátt rann boltinn framhjá vörninni og Bjarna Þórði í markinu. Fimm sekúndur eftir og staðan orðinn 1-0. Íslensku strákarnir gáfust sem fyrr ekki upp heldur reyndu hvað þeir gátu að sækja en því miður gafst ekki nægur tími til að skora. Davíð Þór Viðarsson var bestur íslensku leikmanna í gær sem og öll aftasta varnarlína og Bjarni Þórður í markinu. Ljóst var að nokkrir leikmenn voru þreyttir eftir magakveisuna en þeir börðust þó eins og ljón og voru óheppni að tapa leiknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×