Sport

Eyjólfur stefnir enn á sigur

Íslenska landsliðið í knattspyrnu skipað leikmönnum 21 árs og yngri mætir í dag jafnöldrum sínum frá Ungverjalandi í Búdapest í undankeppni Evrópumótsins. Leikurinn leggst þokkalega vel í Eyjólf Sverrisson, þjálfara liðsins, en tíu leikmenn hafa átt við magaveiru að stríða síðustu daga. „Það eru einhverjir slappir ennþá en þeir eru að safna kröftum svo þeir verði tilbúnir í leikinn,“ sagði Eyjólfur í samtali við Fréttablaðið í gær. Svekkjandi  „Það er svekkjandi að lenda í þessu og það verður ábyggilega á brattann að sækja fyrir okkur.“ Eyjólfur segist lítið vita um ungverska liðið en átti þó von á myndbandsupptöku af liðinu sem hann hugðist kynna sér. Íslensku strákarnir tóku aðeins eina æfingu seinni partinn í gær en frestuðu þeirri sem átti að vera fyrir hádegi. U-21 árs liðið er komið með þrjú stig í riðlinum eftir glæstan sigur á Búlgörum í síðustu viku. Eyjólfur segir sigurinn hafa verið góðan enda ár og dagar síðan ungmennaliðið vann leik. Einfaldur bolti „Strákarnir spiluðu einfaldan bolta og gerðu það vel sem fyrir þá var lagt,“ segir þjálfarinn sem vonast til að sínir menn geti haldið uppteknum hætti í Búdapest. Eyjólfur vildi ekki spá fyrir um úrslit leiksins og segir liðið heldur ekki vera búið að setja sér markmið fyrir keppnina. „Við erum ekki búnir að setja okkur nein langtímamarkmið heldur tökum bara einn leik fyrir í einu. En við förum að sjálfsögðu í alla leiki til að sigra,“ sagði Eyjólfur. „Þetta eru góðir strákar sem spila allir með sínum aðalliðum. Þeir eiga framtíðina svo sannarlega fyrir sér en eru enn að læra. Á þessum tíma taka þeir stærstu stökkin og sýna mestu framfarirnar.“ Leikurinn hefst klukkan hálf þrjú í dag en á morgun mætast A-lið þjóðanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×