Sport

Brynjar Björn ekki með

Brynjar Björn Gunnarsson fór ekki með landsliði Íslands í Knattspyrnu til Ungverjalands þar sem hann var rekinn af velli gegn Búlgaríu. Í hans stað völdu landsliðsþjálfararnir Hjálmar Jónsson, leikmann Gautaborgar í Svíþjóð í landsliðshópinn. Hjálmar hefur leikið 8 landsleiki. Í 8. riðli, sem Íslendingar eru í, steinlágu Ungverjar fyrir Króatíu í Zagreb, 3-0. Ungverjar urðu fyrir áfalli strax á 11. mínútu þegar varnarmaðurinn Sabolcs Husti var rekinn af velli. Dado Prso og Ivan Klasnic skoruðu sitt markið hvor fyrir Króatíu og þriðja markið var sjálfsmark. Í sama riðli tóku Svíar Möltu í karphúsið og unnu 7-0. Zlatan Ibrahimovic skoraði fjögur mörk, þar af þrennu á fyrstu 14 mínútunum, Freddie Ljungberg skoraði 2 mörk og Henrik Larsson 1. Í 1. riðli unnu Finnar Andorra 3-0 og Rúmenía rétt marði Makedóníu 2-1, Chelsealeikmaðurinn Adrian Mutu skoraði sigurmarkið. Óvæntustu úrslit kvöldsins urðu í 2. riðli þegar nýkrýndir Evrópumeistarar Grikklands töpuðu fyrir Albaníu í Tirana, 2-1. Eftir leikinn lenti stuðningsmönnum liðanna saman amk á tveimur stöðum. Á eyjunni Zakynthos lagði Grikki til þriggja Albana með eggvopni, einn Albanana lést af sárum sínum og tveir slösuðust. Í Aþenu slösuðust fjórir Albanir og einn Grikki eftir blóðug slagsmál þar sem eggvopn voru notuð. Danmörk og Úkraína skildu jöfn 1-1 í Kaupmannahöfn og Tyrkir náðu aðeins jafntefli gegn Georgíu á heimavelli en Tyrkir misstu mann af velli í upphafi seinni hálfleiks. Í 3. riðli lagði Portútgal Lettland að velli með 2 mörkum gegn engu. Ronaldo, leikmaður Man. Utd., var maður leiksins, skoraði eitt mark og lagði upp hitt fyrir Pauleta. Þá gerðu Slóvakía og Rússland jafntefli 1-1.Georgy Yartsev þjálfari rússneska landsliðsins sagði af sér eftir leikinn. Þá burstaði Eistland lið Lúxemburgar 4-0. Í 4. riðli urðu afar óvænt úrslit í París þegar Frakkar gerðu aðeins markalaust jafntefli við Ísrael. Sviss átti ekki í vandræðum með Færeyjar og vann 6-0 og Írland sigraði Kýpur, 3-0. Í 5. riðli lenti Ítalía í miklu basli með Noreg en hafði sigur að lokum, 2-1. John Carew kom Noregi yfir strax á 1. mínútu en Daniele de Rossi og Luca Toni skoruðu mörk Ítalíu. Slóvenía sigraði Moldavíu 3-0 þar sem Milenko Acimovic skoraði þrennu. Í 6. riðli þurftu Englendingar að sætta sig við jafntefli, 2-2, gegn Austurríki í Vín. Englendingar komust í 2-0 með mörkum frá Frank Lampard og Steven Gerrard en Austurríkismenn skoruðu 2 mörk á 2 mínútum. Enskir fjölmiðlar tóku sig til í morgun og slátruðu markverði Englendinga, David James, fyrir frammistöðuna í leiknum en jöfnunarmark Austurríkismanna þótti ákaflega klaufalegt. Í sama riðli unnu Pólverjar sannfærandi sigur á Norður-Írlandi 3-0 og Azerbaijan og Wales gerðu jafntefli, 1-1. Og í 7. riðli þurfti Belgía að sætta sig við jafntefli gegn Litháen 1-1 en Sebar og Svartfellingar sigruðu San Marino 3-0.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×