Sport

Landslið fær matareitrun

Tíu leikmenn í undir 21 árs landsliði Íslands í knattspyrnu fengu matareitrun eftir að þeir borðuðu hamborgara á matsölustað í Reykjavík í gærkvöld en ungmennalandsliðið hefur æft þar undanfarna daga. Líklegt er talið að um salmonellu sé að ræða en sýni voru tekin og þau send í rannsókn. Leikmennirnir tíu voru samt ferðafærir í morgun en klukkan ellefu fór 21 árs landsliðið ásamt A landsliði Íslands frá Hótel Loftleiðum til Keflavíkurflugvallar en klukkan eitt fljúga landsliðin tvö áleiðis til Ungverjalands. Þar mætast U 21 árs lið þjóðanna á þriðjudag og A landsliðin á miðvikudag en sá leikur verður sýndur beint á Sýn. Til þess að Eiður Smári Guðjohnsen og aðrir leikmenn A landsliðs Íslands eigi ekki á hættu að smitast af matareitruninni fyrirskipuðu læknar þeim leikmönnum sem veiktust í gærkvöld eftir hamborgaraátið að halda sig til hlés og umgangast ekki A landsliðsmennina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×