Erlent

Vill öll Norðurlöndin í ESB

Laila Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar vill að öll ríki Norðurlanda, þar með talið Ísland, verði í Evrópusambandinu, svo þau geti nýtt sameiningarmátt sinn til góðra verka. Utanríkisráðherrann fylgir sænsku konungshjónunum í opinberri heimsókn hingað til lands í næstu viku. Utanríkisráðherra Svíþjóðar segir óskandi að Íslendingar gengju í Evrópusambandið en hún telur ekki að það spilli fyrir norrænu samstarfi að Ísland og Noregir standi utan við það. "Nei, ég get ekki sagt að það valdi vandræðum en það er áskorun. Það krefst þess að við hugsum um það að við eigum margt sameiginlegt hérna á Norðurlöndunum. Það er ekki alltaf sjálfgefið að öll löndin standi saman. Við neyðumst til að leggja okkur svolítið fram. Við verðum að tilgreina hvers vegna við höfum not af samvinnu hvert við annað. Ég held að vegna þess að við höfum orðið aðilar að mismunandi samtökum höfum við neyðst til að sjá þýðingu norræns samstarfs og þróa það." Og norrænt samstarf verður áfram mikilvægt? "Já svo sannarlega. Það er mikilvægt að þróa áfram þá samvinnu sem við höfum nú. Við eigum langa sögu saman, margar sömu hefðirnar, við höfum mikinn skilning á stöðu hvers annars. Þetta hefur byggst upp á löngum tíma. Þetta eigum við að nýta okkkur í framtíðinni. Ísland sem aðili að NATO og Svíþjóð sem aðili að ESB." Umhverfismál verða ofarlega á baugi í opinberri heimsókn konungshjónanna og það er málaflokkur sem utanríkisráðherra Svíþjóðar álítur brýnt að Norðurlöndin eigi náið samstarf um. Þó telur Laila Freivalds ólíklegt að virkjun Kárahnjúka eða hinar umdeildu hvalveiðar Íslendinga sem Svíar hafa sett spurningamerki við verði á dagskrá í viðræðum hennar við utanríkisráðherra Íslands í næstu viku. Á myndinni er Laila Freivalds ásamt utanríkisráðherra Danmerkur Per Stig Möller.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×