Sport

Ísland mætir Búlgaríu

Íslenska U-21 árs landsliðið í knattspyrnu mætir því búlgarska í fyrsta leik undankeppni EM á Víkingsvelli í dag klukkan 17. Fréttablaðið sló á þráðinn til þjálfara íslenska liðsins, Eyjólfs Sverrissonar, en þetta er einmitt fyrsti alvörulandsleikurinn undir hans stjórn. Stefnan hlýtur að vera sett á sigur á heimavelli. "Jú, mikil ósköp," segir Eyjólfur og bætir við: "Við ætlum ekki að búa til eitthvað múrverk, spilum þó að sjálfsögðu varnarleik þegar við erum ekki með boltann og reynum að sækja þegar við erum með boltann, gerum þetta ekkert flókið." Aðspurður segir Eyjólfur að hann hafi ekki undir höndunum miklar upplýsingar um Búlgarina. "Við rennum nokkuð blint í sjóinn með styrkleika búlgarska liðsins. Vitum í sjálfu sér ekki mjög mikið um þetta lið en það er samt nokkuð ljóst að þeir eru góðir. Búlgarar eru þekkt knattspyrnuþjóð, hafa í gegnum tíðina átt mjög marga góð knattspyrnumenn, fljóta og tekníska. Lið okkar er einnig sterkt og við mætum fullir sjálfstrausts til leiks." En hvernig hefur Eyjólfi líkað að vinna með þessum ungu knattspyrnumönnum? Manni finnst nú ekki svo langt síðan hann var í þessu liði. "Tíminn líður svo sannarlega hratt, það er á hreinu. En þetta er spennandi og krefjandi verkefni sem gaman er að taka þátt í. Þetta er frábært tækifæri fyrir þessa stráka til að láta eftir sér úti í löndum, á þessum vettvangi steig ég einmitt mín stærstu skref í átt að atvinnumennsku," sagði Eyjólfur Sverrisson. Athygli er vakin á því að ókeypis er á leikinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×