Skoðun

Hörð gagnrýni á íslensk stjórnvöld

Kæra ASÍ til ILO - Magnús M. Norðdahl hæstaréttarlögmaður Í Morgunblaðinu þann 10. júní s.l. er að finna litla frétt af þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Þar er sagt frá umfjöllun þings ILO um afskipti íslenskra stjórnvalda af gerð kjarasamninga. Sú umfjöllun er m.a. tilkomin vegna kæru Alþýðusambands Íslands og ítrekaðra athugasemda sérfræðinganefndar ILO undanfarinn rúman áratug. Í fyrirsögn fréttarinnar segir að niðurstöður ILO hafi verið sigur fyrir stjórnvöld og er fyrirsögnin tekin úr ummælum Vilhjálms Egilssonar, ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytisins. Ummæli Vilhjálms eru á miklum misskilningi byggð auk þess sem nokkrar rangfærslur er að finna í máli hans. Í þessari grein er reynt að varpa ljósi á aðkomu þings ILO að máli þessu og leiðrétta rangfærslur ráðuneytisstjórans. Sérstök nefnd um framkvæmd samþykkta ILO kemur saman á öllum þingum ILO og hefur til meðferðar skýrslu sérfræðinganefndar stofnunarinnar sem er sérstök undirnefnd sem starfar í umboði og á ábyrgð stjórnar ILO. Í þeirri skýrslu er einnig að finna niðurstöður og ályktanir nefndar ILO um félagafrelsi sem er samkynja sérfræðinganefndinni en ætlað eingöngu að fjalla um samþykktir nr. 87 og 98 sem fjalla um félagafrelsið og meðhöndla kærur þar að lútandi. Að þessu sinni var að finna skýrslur og athugasemdir um 154 ríki. Þar af var fjallað um 54 ríki sem að einhverju leyti höfðu ekki farið að samþykkt nr. 98 og var Ísland eitt þeirra. Þessi nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins er ekki áfrýjunarnefnd fyrir niðurstöður sérfræðinganefndanna en þær niðurstöður eru allar staðfestar af stjórn ILO. Hlutverk hennar er hins vegar að taka upp til umfjöllunar ár hvert mál c.a. 25 ríkja sem talin eru hafa framið ítrekuð og alvarleg brot á mikilvægustu samþykktum stofnunarinnar. Á um þennan lista er tekist í byrjun þingstarfa og hann síðan að lokum samþykktur af nefndinni. Oft eru mikil átök um hvaða ríki skuli á honum vera enda ekki um "heiðurslista" að ræða heldur þvert á móti. Aldrei fyrr í aðildarsögu Íslands að ILO hafa íslensk stjórnvöld þurft að sæta því að vera tekin á hann. @.mfyr:Vinnubrögð nefndarinnar@megin: Nefndin vinnur þannig, að þeim ríkisstjórnum sem í hlut eiga er gefinn kostur á því að koma fyrir þingnefndina, svara athugasemdum sérfræðinganefndarinnar og veita nefndinni að öðru leyti skýringar. Að svo búnu gefst fulltrúum atvinnurekenda, launafólks og öðrum ríkisstjórnum tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum að. Mjög misjafnt er hvernig einstakar ríkisstjórnirnar bregðast við en segja má að þær skiptist í tvo hópa. Annars vegar þær sem ekki koma auga á það sem aðrir hafa komið auga á, þ.e. að innan landamæra þeirra sé verið að fremja brot á grundvallarmannréttindum launafólks. Í þeirra málflutningi eru að jafnaði fluttar tilfinningaþrungnar ræður um skilningsleysi alþjóðasamfélagsins, yfirgang vesturlanda og almennt um eigið ágæti eða nauðsyn þess að hafa þurft að víkja grundvallarréttindum til hliðar vegna brýnna ástæðna. Gott dæmi um þetta er t.d. ríkisstjórn Súdan sem heldur því fram fullum fetum að á því þjóðaheimili séu ekki þau vandræði sem vert sé að hafa miklar áhyggjur af meðan öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna, ILO og aðrar alþjóðlegar stofnanir eru á öðru máli. Það sama á einnig við um Kúbu þar sem verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda eru ríkisreknar stofnanir. Fleiri falla í hinn hópinn þ.e. ríkisstjórnir sem eru full meðvitaðar um þau vandamál sem við er að glíma og reyna að taka á þeim í samræmi við alþjóðareglur um grundvallarmannréttindi launafólks og atvinnurekenda en telja sig af einhverjum ástæðum ekki hafa náð þeim árangri sem nauðsynlegur sé til þess að þurfa ekki að sæta meðferð í nefndinni vegna brota sinna. Þegar í hlut eiga þróuð lýðræðisríki gera þau að jafnaði grein fyrir því hvernig þau hafi leitast við að bæta það sem ILO hafði áður gagnrýnt í niðurstöðum sérfræðinga og stjórnar ILO. Því miður var það svo, að málflutningur ríkisstjórnar Íslands fyrir nefndinni féll að mestu í þann flokkinn sem fyrr er lýst. Að loknum ræðum er umræðan tekin saman af stjórn fundarins og gerð tillaga um ályktun sem síðan er samþykkt í nefndinni. Oft er tekist á um orðfæri og tilmæli en atkvæðagreiðslur fara ekki fram heldur er miðlað málum þar til niðurstaða er fengin. Í allra alvarlegustu málunum þar sem t.d. réttindi launafólks og atvinnurekenda eru brotin með ofbeldi og á annan hrottafenginn hátt er sett "sérstök málsgrein" í loka skýrslu nefndarinnar og/eða gerð tillaga um að viðkomandi ríki geri tilteknar ráðstafanir. Til þessa kemur þó ekki nema í fáum málum ár hvert. Stundum er því og beint til stjórnar ILO að gera út af örkinni hóp sérfræðinga til þess að afla upplýsinga eða til þess að leita sátta við stjórnvöld en slíkt hefur t.d. átt við varðandi Burma þar sem nauðungarvinna og önnur alvarleg brot eru látin líðast. Flest ríki taka þessu vel og eiga samstarf við ILO en hjá öðrum er ekki við slíkum nefndum tekið eins og t.d. í Zimbawe. Að jafnaði eru niðurstöður sérfræðinganefndarinnar teknar upp í niðurstöður að öllu verulegu leyti og athygli viðkomandi ríkisstjórnar vakin á málinu að nýju. Í þeim tilvikum þar sem þörf er á og til staðar, að því er virðist, viðvarandi vandi er viðkomandi ríkjum bent á að hjá ILO sé að finna margþætta leiðbeiningu og aðstoð sem viðkomandi ríkjum standi til boða eins og þörf er á hverju sinni. Að lokum er viðkomandi ríkisstjórn gert að gefa sérfræðinganefndinni sérstaka skýrslu um þróun mála og þær aðgerðir sem gripið er til þess að lagfæra það ástand sem um er að ræða hverju sinni og ekki hefur verið lagfært og grein gerð fyrir til stofnunarinnar. @.mfyr:Niðurstaðan um Ísland@megin: Í niðurstöðu nefndarinnar um mál ríkisstjórnar Íslands er vísað til niðurstaðna sérfræðinganefndarinnar, skýringa ríkisstjórnarinnar og þeirrar umræðu sem átti sér stað í nefndinni. Athygli stjórnvalda er síðan vakin á þeirri aðstoð sem ILO getur veitt og að lokum er ríkisstjórninni gert að senda sérfræðinganefndinni sérstaka skýrslu um þróun mála. Í engu er þannig hreyft við niðurstöðum sérfræðinganefndarinnar sem stjórn ILO samþykkti á 289 fundi sínum. Ályktun nefndarinnar í heild sinni er eftirfarandi ( íslensk þýðing mín ): "Nefndin tók tillit til þeirra upplýsinga sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar veitti og þeirrar umræðu sem fylgdi. Nefndin gat þess að í umsögn sérfræðinganefndarinnar er vísað til setningar laga sem komu á þvinguðum gerðardómi í fiskveiðum og sem höfðu áhrif á ferli frjálsra og óþvingaðra kjarasamningsviðræðna. Nefndin tók eftir því, að stjórnvöld höfðu áður gripið inn í kjarasamningaviðræður í þessum geira og öðrum við ýmis tækifæri. Nefndin tók einnig eftir ósk aðila vinnumarkaðarins á Íslandi, þess efnis að ríkisstjórnin láti öll afskipti af kjarasamningaviðræðum vera í framtíðinni. Nefndin tók sérstaklega eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að hún væri opin fyrir samráði við aðila vinnumarkaðarins um að kanna þau vandamál sem í fiskveiðigeiranum eru en fiskveiðar skipta landi miklu. Nefndin lét í ljósi þá von, að ríkisstjórnin myndi gera breytingar á verkferlum og venjum við kjarasamningagerð og hrinda þeim í framkvæmd í fiskveiðigeiranum í fullu samráði við þá aðila vinnumarkaðarins sem í hlut eiga, með það fyrir augum og í samræmi við 4.gr. samþykktarinnar ( Samþykkt 98- innskot mitt ) að bæta verkferla í frjálsum og óþvinguðum kjarasamningaviðræðum, með aðstoð ILO eins og þörf væri á. Nefndin fer þess á leit við ríkisstjórnina, að hún í næstu skýrslu sinni til sérfræðinganefndarinnar sendi nákvæmar upplýsingar um þær aðgerðir sem gerðar eru í þessu efni. @.mfyr:Alvarleg gagnrýni@megin: Eins og fram kemur hér að framan, þá felst í því hörð gagnrýni á íslensk stjórnvöld að skýrsla sérfræðinganefndarinnar skuli þurfa að takast fyrir á þingi ILO enda og eingöngu þau mál tekin fyrir þar sem um ítrekuð og alvarleg brot er að ræða. Þar sem viðhlítandi lagfæringar höfðu ekki farið fram og engin grein fyrir slíku gerð í máli Vilhjálms Egilssonar, voru stjórnvöld hvött til breytinga og vakin athygli þeirra á mögulegri aðstoð ILO. Í þessu og meðferðinni allri felst ekki "sigur" fyrir íslensk stjórnvöld eins og Vilhjálmur heldur fram heldur fyrst og áfellisdómur alþjóðasamfélagsins. Hafa ber í huga, að alls lágu fyrir kærur og athugasemdir á 54 ríki vegna brota á samþykkt ILO nr. 98 en einungis var fjallað um 5 alvarlegustu brotin á þingi ILO. Í þeim hópi auk Íslands voru Bangladesh, Kína (v/ Hong Kong), Costa Rica og Zimbave. Fyrir þá sem áhuga hafa á, er heildarskýrslu nefndarinnar að finna á heimasíðu ILO (ilo.org), þar á meðal útdrátt úr ræðum vegna máls Íslands sem og lokaniðurstöðu nefndarinnar (sjá bls. 50 og áfram hvað Ísland varðar). Að lokum þá skal nokkuð leiðrétt sem fram kom í viðtali við Vilhjálm Egilsson í fyrrgreindri frétt blaðsins. Þar segir hann annars vegar að niðurstöður nefndarinnar hafi ekki legið fyrir fyrr en þann 10. júní en undirritaður ritaði frétt á vef ASÍ um málið þann 9. júní og hins vegar að ég hafi skýrt frá niðurstöðum eins og ég hafi viljað hafa þær. Hvorutveggja er rangt. Þingnefnd ILO lauk meðferð málsins þann 8. júní og voru niðurstöður hennar lesnar upp í heyranda hljóði, samþykktar og staðfestar við hamarshögg. Rétt er hins vegar að drögum að fundargerð var ekki dreift fyrr en þann 10. júní. Þær niðurstöður sem ég greindi frá, tilvísun til umræðna í nefndinni sem vísað er til í niðurstöðum og sem ég skýrði frá á vef ASÍ er allt í samræmi við fundargerðir nefndarinnar og rangt hjá Vilhjálmi að ég hafi hagrætt niðurstöðum í umfjöllun minni. Íslensk stjórnvöld hafa á síðustu árum ítrekað haft afskipti af gerð frjálsra kjarasamninga með ólögmætri íhlutun í skilningi grundvallarsamþykkta ILO. Kærumeðferðin á þingi ILO nú í sumar markar vonandi endalok þeirra afskipta.



Skoðun

Sjá meira


×