Sport

Þrír nýir inn í KR-liðið

Samkvæmt nýjustu fregnum hefur körfuknattleikslið KR nælt sér í þrjá nýja leikmenn fyrir komandi tímabil. Lárus Jónsson, bakvörðurinn skemmtilegi úr Hamri, er kominn í vesturbæinn en hann hefur alla tíð leikið með liði Hveragerðisbúa. Fróðlegt verður að sjá hvernig honum gengur að aðlagast nýju liði. Níels Páll Dungal, sem er uppalinn KR-ingur, er kominn aftur til síns heima eftir dvöl í Bandaríkjunum. Að sögn Herberts Arnarsonar, þjálfara KR, á heimasíðu körfuknattleiksdeildar KR er Níels gríðarlega fjölhæfur leikmaður sem mun nýtast liðinu vel í vetur. „Þetta er lunkinn strákur sem getur spilað stöðu leikstjórnanda og bakvarðar jafnt sem framherja,“ sagði Herbert. Í síðustu viku gekk KR frá samningi við Bandaríkjamanninn Damon Garris og var hann valinn að vel ígrunduðu máli. „Hann lék með Kentucky Wesleyan-háskólanum undir stjórn sama þjálfara og ég á sínum tíma, Ray Harper. Að sögn Harpers er þetta mjög fjölhæfur leikmaður og ríkir mikil spenna í herbúðum KR fyrir kappanum. Hann er sömuleiðis spenntur fyrir sínu fyrsta tækifæri í Evrópu,“ sagði Herbert Arnarson, ánægður með stöðu mála.   



Fleiri fréttir

Sjá meira


×