Sport

Mæta Rússum í dag

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir liði Rússlands í dag klukkan tvö í leik í undankeppni Evrópumótsins sem sker úr um hvort liðið hreppir annað sætið. Íslenska liðið myndi þar með ná þeirri stöðu sem stefnt var að í byrjun. Helena Ólafsdóttir, landliðsþjálfari, horfir björt fram á leikinn. Fullar af sjálfstrausti „Það er góð stemning í hópnum og fólk að undirbúa sig á fullu fyrir átökin. Við munum fara varlega í þennan leik enda er rússneska liðið firnasterkt. Þær tóku þátt í lokakeppni heimsmeistaramótsins og eru stóra liðið í þessari viðureign, ef þannig mætti að orði komast. En við erum fullar af sjálfstrausti á okkar eigin heimavelli og málið er að vera innstilltar á þetta verkefni og ná hagstæðum úrslitum“ segir Helena. Leikurinn hefur mikla þýðingu því að með sigri munu stelpurnar tryggja sér annað sætið í riðlinum og góða stöðu fyrir umspil í undankeppni Evrópumótsins. „Þessi leikur snýst um að ná upphaflegu markmiði landsliðsins, sem var annað sætið í riðlinum. Við höfum fullan hug á að ná því. Svo eru náttúrulega búið að vera vangaveltur um hverjar við fáum í umspili. En þetta eru allt frekar jöfn lið sem við munum kljást við og ég vil fyrst og fremst einbeita mér að sunnudeginum og eftir það getum við velt því fyrir okkur hvaða lið við fáum. Við höfum ekki efni á að fara fram úr okkur“. Liðið þjappaði sér saman Ásthildur Helgadóttir hefur verið meidd og verður ekki með í dag. Helena segir liðið hafi saknað hennar en hafi eflst við mótlætið og þjappað sér enn meira saman. „Liðið hefur gert eins vel og hægt er að gera í þessari stöðu. Ásthildur er lykilleikmaður í þessu liði og fyrir vikið hefur mannskapurinn verið staðráðinn í að halda áfram. Mér hefur fundist leikmenn snúa bökum saman og reyna að vinna þetta sem einn maður. Það er samt sem áður gott að hún verði með okkur utan vallar og það veitir stelpunum styrk“. Upplagt fyrir fólk að mæta Mikið hefur verið rætt um leik karlalandsliðsins við Ítalíu og er fólk í skýjunum eftir sigurinn. Stelpurnar eru ekkert hræddar við að spila í skugga þess leiks, og vonast bara til að fólki sé ekki fullseðjað, heldur mæti einnig og styðji við sitt lið. „Þetta er náttúrulega frábært. Stemmningin var gríðarleg á leiknum á miðvikudaginn og strákarnir stóðu sig með prýði. Það eru upplagt fyrir fólk að mæta og skoða þetta frábæra íslenska lið, sem er ungt að aldri og á glæsta framtíð fyrir sér“ segir Helena Ólafsdóttir, landsliðsþjálfari kvenna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×