Innlent

Miðborgin meira og minna lokuð

Miðborg Reykjavíkur hefur meira og minna verið lokað fyrir bílaumferð. Þannig eru allar götur í Kvosinni eingöngu ætlaðar gangandi vegfarendum í dag og í kvöld. Lækjargata er lokuð, Fríkirkjuvegur og Vonarstræti eru lokaðar allri bílaumferð nema strætisvögnum. Hverfisgata er lokuð neðan Snorrabrautar, Laugavegur og Skólavörðustígur eru lokaðir bílum neðan Klapparstígs sem stendur en sú lokun verður færð ofar þegar nær dregur kvöldi. Þá er Suðurgata norðan Hringbrautar einnig lokuð bílaumferð. Búast má við að hátt í eitthundrað þúsund manns taki þátt í atburðum Menningarnætur í Reykjavík í dag og í kvöld. Dagskráin það sem af er degi hefur gengið framar vonum og að sögn lögreglu hafa engin stór vandamál komið upp. Gott veður hjálpar til. Á þriðja hundrað listviðburða og uppákoma eru víðsvegar í borginni, en nánari upplýsingar má nálgast meðal annars á heimasíðu borgarinnar, reykjavik.is. Dagskránni lýkur klukkan ellefu í kvöld með því að um 3000 bombum verður skotið upp á flugeldasýningu á miðbakka Reykjavíkurhafnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×