Innlent

Umfjöllun siðanefndar bönnuð

Vafi leikur á hvort siðanefnd Háskóla Íslands hefur nægilega stoð í lögum til að fjalla um ágreiningsmál að mati dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Nefndinni var í dag bannað að fjalla um kæru erfingja Halldórs Laxness á hendur Hannesi Hólmsteini vegna útgáfu bókarinnar Halldórs, fyrsta bindis ævisögu skáldsins. Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur skal sýslumaður leggja lögbann við að siðanefnd Háskóla Íslands fjalli um kæru á hendur Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, prófessor við skólann. Halldór, fyrsta bindi ævisögu Halldórs Laxness eftir Hannes Hólmstein, kom út fyrir síðustu jól. Bókin varð afar umdeild og var Hannes meðal annars sakaður um grófan ritstuld, að hafa gert orð skáldsins að sínum og látið vera að vitna í þá fræðimenn sem hann studdist við. Aðstandendur Nóbelsskáldsins kærðu Hannes til siðanefndarinnar en Hannes höfðaði mál gegn þeim fyrir dómstólum og vildi einnig fá úr því skorið hvort nefndin hefði rétt til að taka málið fyrir. Í úrskurðinum í dag er verulegur vafi talinn leika á því að nefndin hafi lagalega stoð til að fjalla um málið, og að í öllu falli sé ekki sanngjarnt að hún geri það áður en dómur fellur. Verði lögbanninu ekki hnekkt má nefndin sem sagt ekki fjalla um kæruna fyrr en niðurstaða hefur komið í dómsmálið, sem  tekið verður fyrir í næsta mánuði. Hannes Hólmsteinn var ekki viðstaddur þegar Héraðsdómur kvað upp úrskurð sinn í morgun þar sem hann er staddur á ráðstefnu í Salt Lake City í Bandaríkjunum. Jón Steinar Gunnlaugson, lögmaður Hannesar, segir Hannes tortryggja umhverfið í Háskóla Íslands. Hann sé auðvitað umdeildur maður, hann hafi tekið þátt í umræðum um þjóðfélagsmálin og kannski hoggið á báðar hendur að mati sumra. Jón Steinar segir að meðal þeirra sem hafi orðið fyrir brandi Hannesar séu starfsbræður hans við Háskólann og telur Hannes að hann eigi ekki að þurfa sæta því að fjallað sé um kæru á hendur honum í slíku andrúmslofti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×