Innlent

Hannes vann lögbannsmálið

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að siðanefnd Háskóla Íslands væri óheimilt að fjalla um kæru, dætra Halldórs Laxness, á hendur Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni vegna ritunar hans á fyrsta bindi ævisögu Halldórs Laxness, áður en niðurstaða fæst hjá dómstólum um frávísunarkröfuna. "Þetta er auðvitað ánægjulegur úrskurður fyrir minn skjólstæðing en gagnaðili hefur auðvitað kost á að skjóta honum til Hæstaréttar. Þannig að ekki sé víst að þetta séu endanlega lyktir á þessum þætti deilunnar," segir Jón Steinar Gunnlaugsson, verjandi Hannesar, um niðurstöðu úrskurðarins. Hann segir dóminn hafa fallist á kröfu Hannesar og því lýsi hann ánægju fyrir hans hönd. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafði áður hafnað beiðni Hannesar um að lögbann yrði sett á að siðanefndin fjallaði um kæruna á meðan frávísunarkrafa færi fyrir dómstóla. Í úrskurðinum segir að verulegu vafi sé um hvort siðanefnd Háskóla Íslands hafi nægileg stoð í lögum. Þá segir einnig að vafi sé á hvort réttur aðili innan Háskólans hafi sett siðareglurnar. Á þeim grundvelli hafi Hannes gert sennilegt að áframhaldandi meðferð nefndarinnar bryti gegn lögverðum rétti hans. "Það liggur engin ákvörðun fyrir um það en það verður væntanlega ákveðið strax eftir helgina," sagði Gestur Jónsson, verjandi siðanefndar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×