Sport

Ásgeir ljómaði af gleði

Ásgeir Sigurvinsson var að vonum ánægður með sigurinn gegn Ítölum í gær enda sýndu íslensku strákarnir snilldartilþrif."Þetta var náttúrlega frábær leikur og stemningin var ótrúleg. Leikmennirnir börðust vel frá fyrstu mínútu og voru staðráðnir í að standa sig," sagði Ásgeir og ljómaði af gleði.  Ítalska landsliðið lék ekki sannfærandi á köflum á meðan íslensku strákarnir blómstruðu. Það munaði miklu að Ísland skoraði tvö mörk á tveggja mínútna kafla. "Það var vissulega gott að skora tvö mörk snemma í leiknum en við vissum að Ítalirnir kæmu sterkir til baka í seinni hálfleik. Það vantaði að vísu nokkra lykilleikmenn hjá þeim en þetta er engu að síður feiknasterkt lið. Það eru margir leikmenn sem hafa unnið Meistaradeildina með félagsliðum sínum. Við sýndum hins vegar frábæran leik." Íslenska liðið var geysilega einbeitt í leik sínum og fóru leikmenn grimmir í hvern einasta bolta. Gylfi Einarsson og Brynjar Björn Gunnarsson áttu frábæran leik. "Gylfi og Brynjar stóðu sig frábærlega og það er orðin mikil samkeppni um stöður í liðinu," sagði Ásgeir. "En það er allt annað að sjá til Brynjars núna enda er hann kominn í nýtt lið þar sem hann fær að spila. Fyrir vikið hefur sjálfstraustið hjá honum aukist og hann er að spila vel." Ásgeir var yfir sig hrifinn af stemningunni á Laugardalsvelli. "Það var frábær stemning hér og söguleg stund þar sem vallarmetið var bætt. Það var gríðarlegur fjöldi í stæðunum og það er rétt hægt að ímynda sér hvernig stemningin hefði verið ef þeir áhorfendur hefðu staðið nær."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×