Sport

Byrjunarliðið tilkynnt

Landsliðsþjálfararnir Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson eru búnir að tilkynna byrjunarliðið sem mætir Ítölum á Laugardalsvelli í kvöld. Hinn fertugi Birkir Kristinsson stendur í markinu í kveðjuleik sínum, Kristján Örn Sigurðsson, Ólafur Örn Bjarnason og Hermann Hreiðarsson eru í þriggja manna vörn. Þórður Guðjónsson og Indriði Sigurðsson eru á köntunum. Aftast á miðjunni er Brynjar Björn Gunnarsson og fyrir framan hann eru Gylfi Einarsson og Rúnar Kristinsson. Eiður Smári Guðjohnsen og Heiðar Helguson eru í fremstu víglínu. Það bendir margt til þess að aðsóknarmetið falli í kvöld. Í hádeginu var búið að selja um það bil 15 þúsund og 500 miða. Metið er 18.194 frá árinu 1968 þegar Valur lék gegn Benfica. Miðinn kostar 1.200 krónur. 50% afsláttur er af miðum fyrir 16 ára og yngri. Frítt er í fjölskyldu-og húsdýragarðinn í dag fyrir þá sem keypt hafa sér miða og tónleikar hefjast á Laugardalsvelli klukkan 17.30 en leikurinn hefst klukkan 19.15 Knattspyrnuáhugamenn eru hvattir til af lögreglu að nýta almenningssamgöngur og sameinast um ökutæki og að mæta snemma í dalinn. Sundlaugavegur verður lokaður til vesturs frá Reykjavegi meðan á leiknum stendur. Marcello Lippi þjálfari Ítala stýrir sínum fyrsta landsleik í kvöld og líklegt er að hann stilli upp leikkerfinu 4-3-1-2. Gianluigi Buffon verður í markinu, Massimo Oddo og Zambrotta bakverðir, Alessandro Nesta og Marco Materazzi miðverðir, Perrotta, Volpi og Gennaro Gattuso á miðjunni og Stefano Fiore fyrir framan þá, Bazzani og Marco Di Vaio í framlínunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×