Innlent

Vopn notuð í fíkniefnaviðskiptum

Vopnabúr sem lögregla í Hafnarfirði og Reykjavík fann við húsleit í fyrrinótt var notað sem greiðsla í fíkniefnaviðskiptum. Lögreglan í Hafnarfirði var að rannsaka innbrot í hús í Garðabæ í byrjun ágúst þar sem fjölda vopna var stolið og hugðist fara fram á gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum í tengslum við málið og fá heimild til húsleitar í húsi í austurborg Reykjavíkur. Þá bárust fregnir af því að lögreglan í Reykjavík hefði handtekið þrjá menn og gert húsleit í viðkomandi húsi. Að sögn Gísla Þorsteinssonar, lögreglufulltrúa í Hafnarfirði, játuðu tvímenningarnir aðild sína að innbrotinu og var því ekki ástæða til að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim. Gísli segir tvímenningana hafa látið þremenningana, sem lögreglan í Reykjavík handtók, fá vopnin sem greiðslu í fíkniefnaviðskiptum. Meðal vopnanna voru tvær haglabyssur sem búið var að saga hlaup og skefti af, hnífar, sveðjur og öxi, auk skotfæra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×