Sport

Jón Arnór vill breyta til

Jón Arnór Stefánsson körfuknattleiksmaðurinn snjalli vinnur nú að því að losna undan samningi við bandaríska körfuknattleiksliðið Dallas Mavericks. Jón Arnór hefur verið samningsbundinn liðinu síðast liðið ár en hefur lítið fengið að spreyta sig í NBA-deildinni. "Ef ég fæ ekki að spila meira vil ég losna undan samningnum," sagði Jón Arnór í samtali við Fréttablaðið í gær. "Það segir sig sjálft að það er mikilvægt að fá að spila. Það hefur lengi blundað í mér að breyta til og ég hef rætt um það við forráðamenn Mavericks. Það ætti að skýrast nú í vikunni hvað verður," segir Jón Arnór en umboðsmenn hans vinna nú að því að fá hann lausan. Jón Arnór stóð sig vel með liði Mavericks í sumardeildinni og voru þjálfarar liðsins afar ánægðir með frammistöðu hans. Jón Arnór segir að eigendur og þjálfarar liðsins séu ekki sáttir við að missa hann en sýna aðstöðu hans mikinn skilning. Það kann mörgum að finnast það undarlegt að ungir leikmenn vilji losna frá liði í NBA-deildinni enda dreymir marga um að leika meðal þeirra bestu. "Það er ekki spennandi að vera í NBA-deildinni og fá ekki að spila. Ég vil gera þetta fyrir mig sem körfuboltamann og fá að þroskast sem leikmaður," segir Jón Arnór. "Mavericks hefur verið í toppbaráttunni og vilja vinna titil. Það verður því erfitt fyrir mig sem ungan leikmann að fá tækifæri. Þetta væri kannski öðruvísi ef um lakari lið væri að ræða." Jón Arnór segir að miklar breytingar hafi orðið á leikmannahóp Mavericks frá síðasta tímabili og margir leikmenn komnir til liðsins. "Ég veit því ekki hvað verður en ég er ennþá í leikmannahópnum. Það væri gott að reyna fyrir sér annarstaðar í eitt ár og herja svo aftur á NBA-deildina." Þó nokkur lið hafa sýnt Jóni Arnóri áhuga, þar á meðal önnur NBA-lið sem og lið frá Ítalíu, Spáni og CSKA St. Pétursborg frá Rússlandi. Það tíðkast ekki hjá körfuknattleiksliðum í NBA að lána leikmenn annað eins og gerist í knattspyrnuheiminum. Forráðamenn Mavericks eru fúsir til að sleppa Jóni til Evrópu en ekki til annarra liða í NBA-deildinni. "Ég get ekki farið út í nein smáatriði núna en það ætti að ráðast í vikunni hvað verður," segir Jón Arnór. "Mig hefur alltaf langað til að spila á Ítalíu og Spáni. Deildin í Rússlandi á einnig að vera sú sterkasta í ár og það væri gaman að spila þar þótt landið heilli ekki." Ef Jón Arnór fer til Ítalíu eða Spánar hittir hann fyrir systkini sín. Ólafur elsti bróðir Jóns Arnórs leikur sem kunnugt er handbolta með Ciudad Real á Spáni og Stefanía systir hans býr í Mílanó. "Það væri frábært að búa nálægt þeim en Rússagullið heillar einnig," segir Jón Arnór hlæjandi að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×