Innlent

Jón Steinar í stað Péturs?

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður íhugar alvarlega að sækja um stöðu hæstaréttardómara sem losnar þegar Pétur Hafstein lætur af störfum. Pétur Hafstein hefur verið dómari við Hæstarétt í þrettán ár en hann hefur ákveðið að láta af því starfi 1. október og hefja nám í sagnfræði og stunda hestamennsku á jörð sinni á Rangárvöllum. Staða hans hefur nú verið auglýst laus til umsóknar og rennur frestur til að sækja um út 27. ágúst. Síðast þegar skipað var í stöðu hæstaréttardómara urðu miklar deilur en þá var Ólafur Börkur Þorvaldsson, frændi Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, skipaður eftir að Haraldur Henrysson lét af störfum. Meðal annarra umsækjenda voru Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari, Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður og Eiríkur Tómasson lagaprófessor. Sú ákvörðun var kærð til Umboðsmanns Alþingis sem gerði athugasemdir við málsmeðferð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Ekki náðist í Hjördísi Hákonardóttur eða Ragnar H. Hall í dag en Eiríkur Tómasson sagðist í samtali við Stöð 2 í dag ekki vera búinn að taka ákvörðun um hvort hann ætlaði að sækja um að nýju. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður og lagaprófessor segist hins vegar vera að íhuga alvarlega að sækja um embætti hæstaréttardómara. Hann muni taka um það ákvörðun í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×