Innlent

Flóðahætta jafnvel liðin hjá

Yfirborð Jökulsár á Dal lækkar óðum og telja menn að flóðahætta sé jafnvel liðin hjá. Enn er ekki vitað af hverju frárennslisgöngin fluttu ekki eins mikið vatn og þeim var ætlað. Hlýindi og sólskin undanfarna daga hafa valdi mikilli sólbráð í Brúarjökli sem áin rennur undan, í gegnum vinnusvæðið við Kárahnjúka og ofan í frárennslisgöng sem eiga að halda ánni frá stíflugerðarsvæðinu. Göngin hafa ekki annað rennslinu svo vinna við stíflugerðina stöðvaðist í nokkra daga. Stíflan hefur verið hækkuð um nítján metra. Sú viðbót á að tryggja að þótt meira rennsli verði í ánni flæði ekki yfir vinnusvæðið. Brúin yfir ána hefur nokkrum sinnum farið á kaf í flóðunum og jafnvel verið í hættu. Klukkan fjögur í dag var rennsli árinnar svipað og á sama tíma í gær en menn gera sér þó vonir um að hámarkinu sé náð og vatnavextirnir verði ekki meiri að sögn Haralds B. Alfreðssonar, framkvæmdaeftirliti Landsvirkjunar. Hann segir 830 rúmmetra rennsli hafa verið í gær og það verði væntanlega eitthvað minna í kvöld, og jafnvel það „lítið“ að ekki flæði yfir brúna. Veðurfræðingar segja að loftmassinn sé að kólna niður þannig að ekki sé von á meira af hlýju lofti inn yfir jökulinn að sögn Haralds. Þó taka menn með í reikninginn að nokkurs konar tappi gæti hafa myndast undir jöklinum svo vatn gæti skyndilega flætt fram. Boruð hafa verið göng niður í frárennslisgöngin til að tappa lofti úr þeim og hefur það aukið rennslisgetuna. Enn vita menn þó ekki nákvæmlega hvað veldur því að göngin taka ekki við eins miklu og reiknað hafði verið út.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×