Innlent

Samningar ekki fullreyndir

Þórólfur Árnason, borgarstjóri í Reykjavík, segir að víst sé uppi ágreiningur um landareign Reykjavíkur og Kópavogs í Heiðmörk. "Það heitir ágreiningur þegar annar aðilinn er ekki sáttur við það sem hinn segir," segir borgarstjórinn. Þórólfur segir að með neitun borgarráðs á beiðni Kópavogs um að leggja vatnslögn um borgarland í Heiðmörk sé verið að knýja á um að úrlausn fáist í áratugagamla landamerkjadeilu sveitarfélaganna. "Til að leggja vatnslögnina þarf að koma til breyting á aðalskipulagi og því teljum við rétt að ganga fyrst úr skugga um ágreining sem uppi er um eignarhald á landinu," segir hann. "Girðing er granna sættir," bætir Þórólfur við og telur fjarri að aukinn stirðleiki sé í samskiptum Reykjavíkur og Kópavogs. Aðspurður hvort ekki sé viðbúið að bíða þurfi lengi eftir niðurstöðu óbyggðanefndar í deilumáli sveitarfélaganna bendir Þórólfur á að ríkisvaldið, Reykjavíkurborg, Kópavogur og Seltjarnarnesbær, sem kröfur eiga í Heiðmörk, gætu líka sest að samningaborðinu og leyst málið þannig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×