Innlent

Aldrei heitara í Reykjavík

Hitinn í Reykjavík náði 24,8 stigum í gær og er það hæsti hiti sem mælst hefur í höfuðborginni. Hlýjasti loftmassi síðan mælingar hófust, segja veðurfræðingar. Heitavatnsnotkun höfuðborgarbúa var sérstaklega lítil en notkun á köldu vatni lítið eitt meiri en venjulega. Hitinn í Reykjavík náði 24,8 stigum í gær og er það hæsti hiti sem mælst hefur í höfuðborginni. Gamla metið hljóðaði upp á 24,3 stig og var sett 9. júlí árið 1976 að sögn Björn Sævars Einarssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Hitinn á landinu í gær mældist hæstur 29,2 stig á Egilsstaðaflugvelli og jafnaði hæsta hita sem mældur hefur verið með nútímamælitækjum, á Kirkjubæjarklaustri árið 1991. Hæsti hiti sem lesinn hefur verið af mæli hér á landi var hins vegar 30,5 stig, á Teigarhorni árið 1939. "Þetta er hlýjasti loftmassi sem komið hefur hingað til lands síðan mælingar hófust," segir Björn Sævar en hitinn í gær fór víða yfir 27 stig. Áfram var svalast í þokulofti við Húnaflóa og í Skagafirði en lægsti hiti á landinu mældist 10,8 stig í Litlu-Ávík á Ströndum. Notkun Reykvíkinga á köldu vatni var lítið eitt meiri í hitanum í gær en hún er yfirleitt að sögn Sigurðar E. Sigurðssonar, vakthafandi vélfræðingsins hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Sigurður segir hins vegar heitavatnsnotkunina sérstaklega litla í veðurblíðunni í gær. Í gær notuðu Reykvíkingar um 2.300 rúmmetra af köldu vatni á klukkustund en venjuleg notkun er um 2.000 rúmmetrar að sögn Sigurðar. Heitavatnsnotkun Reykvíkinga í gær nam tæplega þrjú þúsund rúmmetrum á klukkustund sem Sigurður segir mjög lítið. Til samanburðar nefnir hann venjulegan júlídag á árinu og var notkunin þá ríflega fjögur þúsund rúmmetrar á klukkustund. "Ég býst við að aukinn þrýstingur myndist á að taka sumarfrí á þessum tíma og jafnvel til þess að vinnustöðum loki á heitustu svæðum," segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, aðspurður um áhrif góða veðursins á atvinnulífið. Ari segir ómögulegt að slá á hversu miklir fjármunir geti tapast við það að skrifstofur loki vegna veðurs. "Það má þó auðvitað gera sér í hugarlund að slíkir dagar hægi nokkuð á atvinnulífinu." Ari bendir þó á að margir hópar séu í þeirri aðstöðu að verða að leiða góða veðrið hjá sér. "Ég býst þó við því að allir sem aðstöðu hafa reyni í einhverjum mæli að njóta veðurblíðunnar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×