Skoðun

Debet- og kreditkortanotkun eykst

Þjóðarbúskapurinn - Katrín Ólafsdóttir Hagfræðingar horfa jafnan mikið á tölur. Mismunandi tölur gefa mismunandi upplýsingar um ástand efnahagsmála hverju sinni. Lesa má margt um þróun einkaneyslu úr tölum um notkun debet- og kreditkorta. Seðlabankinn hefur birt tölur um notkun þessara korta fyrir fyrri helming þessa árs. Í heildina er upphæðin sem greidd var með debetkortum (eða tekin út úr hraðbanka) á tímabilinu janúar til júní á þessu ári 10½ % hærri en á sama tíma í fyrra. Aukningin innanlands er svipuð, en ef tekið er tillit til verðbólgu, þá er aukningin í notkun debetkorta innanlands 7½ %. Aukning í fjölda færslna er ámóta, þannig að svo virðist sem hver færsla á þessu ári sé að raunvirði svipuð og í fyrra. Við notum hins vegar debetkortin meira erlendis á þessu ári en í fyrra, og er aukningin um 23 %, en gengi krónunnar var mjög svipað á fyrri helmingi þessa árs og í fyrra. Notkun debetkorta erlendis er mest í því að taka út úr bönkum og svo virðist sem hver úttekt sé heldur hærri í ár en í fyrra. Allt eru þetta vísbendingar um að einkaneysla sé meiri á þessu ári en í fyrra. En hvað með kreditkortin? Svo virðist sem aukningin í notkun debetkorta sé meiri en notkun kreditkorta, eða nálægt 13% frá janúar til júní í fyrra miðað við sama tímabil í ár. Innanlands er aukningin heldur minni og þegar tekið hefur verið tillit til verðbólgu, er aukningin 7½ % eða sú sama og aukning í debetkortaveltu. Færslufjöldinn eykst heldur minna, sem bendir til þess að hver færsla í ár sé hærri en var í fyrra. Á hinn bóginn erum við mun duglegri í að strauja kortin erlendis í ár en í fyrra. Aukningin er ríflega 30 %, eða nálægt þriðjungur. Af þessu má draga þá ályktun að einkaneysla sé meiri það sem af er ári en á sama tíma í fyrra. Seðlabankinn spáir 5½ % vexti einkaneyslu á þessu ári meðan fjármálaráðuneytið spáir 5 % aukningu. Miðað við notkun debet- og kreditkorta það sem af er ári, er þetta varfærin spá. Þá bendir aukning í notkun debet- og kreditkorta til þess að skuldir heimilanna séu að aukast þar sem hún er nokkuð umfram launahækkun, en hún mældist 4 % samkvæmt launavísitölu á þessum tíma. Þá er neysla okkar erlendis mun meiri á þessu ári en í fyrra. Þetta leiðir að öðru óbreyttu til versnandi halla á þjónustuviðskiptum við útlönd. Á móti kemur að samkvæmt fréttum hefur fjöldi erlendra ferðamanna verið mun meiri hérlendis í ár en í fyrra og ef þeir hafa notað debet- og kreditkortin í einhverjum mæli, þá vegur það á móti aukinni neyslu okkar erlendis.



Skoðun

Sjá meira


×