Innlent

Fjármögnun meðferðar sprautufíkla

Heilbrigðisyfirvöld ætla að reyna að koma til móts við SÁÁ vegna kostnaðar við meðferð sprautufíkla sem háðir eru ópíumefnum. Samtökin segjast ítrekað hafa reynt á undanförnum árum að vekja athygli stjórnvalda á málinu en hvorki heilbrigðisráðherra né formaður heilbrigðisnefndar Alþingis kannast við það.  Fjörutíu sprautufíklar sækja meðferð á göngudeildina við sjúkrahúsið Vog. Kostnaðurinn nemur um tólf miljónum á ári og þar af fara um átta milljónir í lyfjakostnað. Í ályktun frá stjórn SÁÁ segir að heilbrigðisyfirvöld taki engan þátt í kostnaði við meðferðina og mismuni ungum, mikið veikum sjúklingum. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir að reynt verði að skoða hvernig hægt sé að koma til móts við SÁÁ og að reynt verði að finna farsæla lausn á málinu. Undir það tekur Jónína Bjartmarz, formaður heilbrigðisnefndar Alþingis, og segir það ekki ætlun neins að mismuna sjúklingum eða fíklum eftir einhverjum tegundum. Það sé hins vegar þannig að meðferðarstarf SÁÁ sé rekið fyrir framlög af fjárlögum sem nemur ríflega 450 milljónum á þessu ári, til viðbótar því sem þeir fá í sína hlutdeild úr spilakössum, og segist Jónína fyrirfram hafa haldið að í þjónustusamningunum sem ríkið hefur gert við SÁÁ væri gert ráð fyrir þessum lyfjakostnaði eins og öllum öðrum kostnaði. Varaformaður SÁÁ, Arnþór Jónsson, segir að þegar þjónustusamningur við ríkið hafi verið undirritaður hafi ekki legið fyrir að göngudeildin sæi alfarið um meðferð sprautufíkla, og ekki sé gert ráð fyrir þeim kostnaði í samningnum. SÁÁ greiði því meðferðina með sjálfsaflarfé sínu og svo hafi verið frá árinu 1999. Athygli vekur að heilbrigðisyfirvöld kannast ekki við að SÁÁ hafi sóst eftir því að ríkið tæki sérstaklega þátt í kostnaði við meðferð sprautufíkla. Varaformaður SÁÁ segir hins vegar að erindi þess efnis hafi legið hjá heilbrigðisráðuneytinu, samtökin hafi farið fyrir fjárlaganefnd til að ýta við málinu og til séu bréfaskriftir þar að lútandi. Enda hefði stjórnin ekki sent frá sér svo harðorða ályktun nema áður hefði verið reynt að knýja fram þátttöku heilbrigðisyfirvalda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×