Innlent

Metfjöldi ferðamannna

Erlendir ferðamenn settu heimsóknarmet hingað til lands í síðasta mánuði þegar rösklega sextíu og fjögur þúsund útlendingar heimsóttu landið, en þeir kaupa minna hér en áður. Það er hátt í tólf þúsund fleiri ferðamenn en í júlímánuði í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálaráðs í Leifsstöð. Ef litið er á fyrstu sjö mánuði ársins hafa tæplega 30 þúsund fleiri ferðamenn komið til landsins það sem af er árinu en á sama tíma í fyrra sem er um það bil sautján prósenta aukning. Það er aukning umfram spár. Fyrstu sex mánuði ársins komu lang flestir ferðamannanna frá Bretlandi, eða um 35 þúsund manns, sem er rösklega tíu prósenta fjölgun frá í fyrra. Bandaríkjamenn koma næstir, 28.500 talsins, sem er rúmlega níu prósenta fjölgun. Fjölmargir Norðurlandabúar komu hingað, flestir frá Danmörku, eða tæp 20 þúsund, sem skipar Dönum í þriðja sæti á heildarlistanum og þar nam aukningin röskum 35 prósentum. Í prósentum var aukningin mest frá Japan, eða 86 prósent, en heildarfjöldinn var hins vegar ekki nema tæp fjögur þúsund. Samkvæmt tölum Iceland Refund, sem sér um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna, hafa þau umsvif aðeins aukist um tíu prósent þótt fjöldinn hafi aukist um sautján prósent. Bandaríkjamenn vega lang þyngst á þessu sviði, fá endurgreitt rúm 20 prósent af öllum endurgreiðslum, sem auðvitað endurspeglar kaup þeirra. Þeir kaupa að jafnaði varning sem þeir geta fengið vaskinn endurgreiddan af fyrir um sex þúsund krónur hver maður. Norðmenn koma næst með fimm þúsund, Svíar eru þar alveg á hælum þeirra og síðan Danir með tæp fjögur þúsund á mann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×