Innlent

Kjarabarátta kennara hefst að nýju

Félag grunnskólakennara á fund með viðsemjendum sínum hjá ríkissáttasemjara á miðvikudaginn. Kennarar hafa boðað verkfall í grunnskólum landsins frá 20. september. Grunnskólakennarar greiddu sem kunnugt er atkvæði með verkfallsboðun í byrjun júní eftir nokkrar vikur af samningsþófi milli Félags grunnskólakennara og launanefnd sveitarfélaga þar sem hvorki gekk né rak. Að sögn Finnboga Sigurðssonar, formanns Félags grunnskólakennara, var ákveðið að bíða með alla fundi í sumar sökum sumarleyfa og því hefur ekki verið fundað síðan 14. júní. Á miðvikudaginn kemur hefjast samningaviðræður hins vegar á nýjan leik og má reikna með miklum fundarhöldum í kjölfarið, enda ekki nema rúmlega mánuður þar til verkfall skellur á ef ekki tekst að semja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×