Sport

KR-ingar teknir í kennslustund

FH-ingar sýndu frábæra knattspyrnu á köflum er þeir heimsóttu KR-inga í 8-liða úrslitum VISA-bikars karla í gær og fóru á endanum með öruggan 1-3 sigur af hólmi. Leikurinn í gær sýndi að það er enginn skortur á sjálfstrausti í Hafnarfjarðarliðinu og ljóst er að með sömu spilamennsku munu fá lið hafa burði í að hindra FH-inga í að sigra tvöfalt í ár. Liðið byrjaði af miklum krafti í gær og strax á 6. mínútu leiksins hafði Jónas Grani Garðarsson komið gestunum yfir þegar hann fylgdi eftir föstu skoti Allans Borgvardt. Það tók KR-liðið um stundarfjórðung að vakna til lífsins og komust þeir varla yfir miðju fyrstu tíu mínútur leiksins, slík var pressa gestanna. Á 27. mínútu bætti Emil Hallfreðsson við öðru marki og var það keimlíkt því fyrsta, hann fylgdi eftir skoti Baldurs Bett rétt við vítateiginn. Mörkin voru lýsandi dæmi fyrir spilamennsku FH; leikmenn liðsins voru á undan í alla lausa bolta og spiluðu af miklu öryggi. Hjá KR-ingum var baráttan og grimmdin einfaldlega ekki til staðar og þurftu þeir að lúta í lægra haldi á öllum sviðum knattspyrnunnar. Fjórum mínútum síðar hélt martröð heimamanna áfram þegar Kristján Örn Sigurðsson kom boltanum í eigið net eftir aukaspyrnu Heimis Guðjónssonar. Þegar á þessum tímapunkti var fólk úr KR-helmingi áhorfendastúkunnar byrjað að tínast í burtu enda líkega pínlegt fyrir flesta KR-inga að horfa á sína menn. Fyrsta skot liðsins á mark kom á 34. mínútu og kom það beint úr aukaspyrnu Arnars Gunnlaugssonar af tæplega 30 metra færi. Í síðari hálfleik jafnaðist leikurinn nokkuð en sóknarleikur KR-inga var bitlaus með eindæmum. FH-ingar sköpuðu ávallt hættu úr föstum leikatriðum og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Það var ekki fyrr en lykilmenn FH voru farnir af velli og hinir ungu Theodór Elmar Bjarnason og Sölvi Davíðsson komu inn á í lið KR sem heimamenn fóru að gera eitthvað af viti og náði sá síðastnefndi að rétta hlut KR tæpum tíu mínútum fyrir leikslok. Þessi sprettur heimamanna kom hinsvegar allt of seint og kemur það í hlut FH að vera í hattinum þegar dregið er í undanúrslit VISA-bikarsins. Ólafur Jóhannsson, þjálfari FH, hefur náð að búa til gríðarlega heilsteypt lið sem í gær bauð líklega upp á besta fótboltann sem sést hefur í sumar. Emil Hallfreðsson var byrjaður að leika sér að varnarmönnum KR strax í upphafi síðari hálfleiks og fór ótrúlega illa með Jökul Elísabetarson á vinstri kantinum. Sverrir Garðarsson og Tommy Nielsen voru nánast allan tímann í stuttu þríhyrningaspili í öftustu vörn og var aldrei ógnað af neinu viti og fer þarna sennilega öruggasta miðvarðapar landsins. Fyrir utan síðasta korterið voru heimamenn ekki nema svipur hjá sjón og greinilegt að eitthvað mikið er að í Vesturbænum. Þar ríkir andleysi sem er á góðri leið með að eyðileggja sumarið - liðið er nú dottið út úr Evrópu- og bikarkeppninni og með áframhaldandi spilamennsku eins og í gær mun liðið enda í neðri hluta Landsbankadeildarinnar. Ofmetnumst ekki Sverrir Garðarsson var, rétt eins og allir samherjar sínir, í sigurvímu eftir leikinn og hinn ánægðasti með að vera kominn í undanúrslit bikarsins. "Við áttum þetta skilið. Mér fannst við algjörlega yfirspila þá í fyrri hálfleik þótt að við höfum dottið aðeins niður í þeim seinni var þetta alltaf pottþétt," segir Sverrir. Hann segir heppni hafa spilað þátt í að liðið hafi verið komið 3-0 yfir eftir rétt rúman hálftíma leik. "Það var alltaf ætlunin að keyra á þá strax í byrjun en stundum dettur þetta svona fyrir okkur eins og það var í dag. Stundum er það á hinn veginn þannig að þetta var bara einn af þessum dögum þar sem flest allt gengur upp. Við höldum okkur samt á jörðinni og tökum einn leik fyrir í einu. Við hugsum ekkert um hvar við stöndum í deild og bikar - það er bara næsti leikur sem kemst að," segir Sverrir. Vorum á rassgatinu  Það var annað yfirbragð á Ágústi Gylfasyni þegar Fréttablaðið tók hann tali í leikslok. "Þetta eru mikil vonbrigði. Við komum einfaldlega ekki klárir inn í leikinn og það er synd því að þessi eini leikur er það sem telur. Tvö af mörkum þeirra komu eftir föst leikatriði þar sem einbeitingin hjá okkur var ekki í lagi og við vorum bara á rassgatinu í þessum föstu leikatriðum. Við sýndum smá karakter með því að koma til baka í síðari hálfleik og náðum að setja aðeins á þá. En því miður telur það bara ekki neitt," sagði Ágúst. Nú þegar bikarkeppnin er úr sögunni er Landsbankadeildin það eina sem KR-ingar hafa að keppa að og segir Ágúst að stefnan sé að gera það besta úr henni. "Við höfum verið að gera alltof mikið af jafnteflum þar en við getum ekki annað en hugsað bara um næsta leik. Hann er á sunnudag gegn ÍBV og ef við vinnum hann ekki þá mun vanta mikið upp á til að eiga möguleika á að klára dæmið," segir Ágúst, sem gekk í raðir KR frá Fram fyrir tímabilið með þeim tilgangi að vinna titla, að eigin sögn. Eins og staðan er í dag er fátt sem bendir til þess að það eigi eftir að rætast úr því. "Maður á alltaf möguleika á titli þegar mótið hefst, hvort sem það er með KR eða Fram. Það er ekkert sjálfgefið að vinna titla þótt maður sé í KR eins og hefur sýnt sig. Ég á mjög erfitt með að segja hvað er að hjá liðinu. Þetta er eitthvað sálfræðilegt," segir Ágúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×