Sport

FH sleppir ekki takinu

Stórleikur átta liða úrslitanna er klárlega viðureign KR og FH í Frostaskjóli. Liðin hafa mæst oft síðustu ár og er óhætt að segja að FH sé komið með hreðjatak á KR en það er orðið ansi langt síðan Vesturbæjarrisinn lagði Fimleikafélagið. Ólafur Kristjánsson, þjálfari Fram, hefur leikið með báðum félögum og við fengum hann til þess að spá í spilin fyrir okkur. "Ég er mjög spenntur fyrir þessum leik því hann gæti orðið vendipunktur fyrir bæði lið. Ef FH sigrar staðfestist það að þeir geta virkilega barist á mörgum vígstöðvum og fyrir KR er þetta möguleiki til þess að rífa sig upp úr ládeyðu. Þannig að þetta er gríðarlega mikilvægur leikur," sagði Ólafur en hann telur KR virkilega þurfa á sigri að halda enda gerir hann ekki ráð fyrir því að þeir verji titil sinn í deildinni. "Mér finnst hafa verið mjög neikvæðir tónar í kringum KR. Leiðinlega neikvæðir síðan ég kom heim. Það er kvartað yfir öllu og það virðist ekki vera starfsfriður í Vesturbænum en það er ekkert nýtt enda virðist bara vera starfsfriður þar ef það næst árangur. Ég tel að FH hafi hópinn til þess að fara alla leið í bæði deild og bikar en ég efast um að KR hafi það." Eins og áður segir hefur FH haft gríðarlegt tak á KR síðustu mánuðum en telur Ólafur að slíkt hafi áhrif þegar út í svona leik er komið? "Þegar maðurer þjálfari og segir við lið sitt að tölfræðin hafi ekkert að segja þá er það bara til þess að reyna að gera lítið úr tölfræðinni. Það er aftur á móti staðreynd að svona lagað hefur áhrif á leikmenn og sérstaklega þá sem tóku þátt í leikjunum á undan. Engu að síður hlýtur að styttast í sigurleik hjá KR en sálfræðitakið er mjög sterkt hjá FH. Ég tel að FH-liðið í dag sé einfaldlega of sterkt til þess að tapa þessum leik þannig að ég tippa á FH-sigur," sagði Ólafur Kristjánsson. Hin viðureign kvöldsins fer fram á Kópavogsvelli þar sem liðið í fyrsta sæti 1. deildar, Valur, tekur á móti liðinu í þriðja sæti deildarinnar, HK. Valur hefur haft gott tak á HK í sumar og unnið báðar viðureignirnar, 5-1 og 1-0. Við fengum Bjarna Jóhannsson, þjálfara Breiðabliks, til að leiða okkur í allan sannleika um það hvernig þessi leikur fer. "Mér finnst eins og bæði þessi lið hafa verið með hugann við þennan leik frá því að drátturinn fór fram því ekki hafa þau verið að hala inn stigin í deildinni frá drættinum. Ég tel að bæði lið mæti vel undirbúin og að leikurinn endi í vítaspyrnukeppni þar sem HK fer með sigur," sagði Bjarni ákveðinn og greinilega búinn að rýna vel í kristalkúluna sína. Rétt er síðan að geta þess að leikirnir hefjast klukkan 18.30.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×