Sport

Tveir leikir við Þjóðverja

Íslenska landsliðið í handknattleik lék tvo æfingaleiki gegn Þjóðverjum um helgina en leikirnir voru liður í undirbúningi liðanna fyrir Ólympíuleikana í Aþenu sem hefjast í næsta mánuði. Íslenska liðið gerði jafntefli í fyrri leiknum, 27-27, í Schwerin á laugardeginum en tapaði seinni leiknum á sunnudaginn í Rostock með sjö mörkum, 32-25. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var tiltölulega sáttur við leikina þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær en sagði erfitt að meta stöðuna á liðinu vegna erfiðra æfingatarnar sem liðið hefur gengið í gegnum að undanförnu. "Ég var mjög ánægður með fyrri leikinn. Við byrjuðum reyndar illa og þurftum að vinna upp fimm marka forystu Þjóðverjanna. Í síðari hálfleik spiluðum við hins vegar mjög vel, vörnin var góð, við fengum hraðaupphlaup í kjölfarið og sóknarleikurinn var skynsamur. Við gátum gert út um þann leik undir lokin þegar við vorum með þriggja marka forystu, 25-22, en við brenndum af hraðaupphlaupi og eftir það komust Þjóðverjar inn í leikinn aftur og náðu að jafna áður en leiktíminn var úti. Það er ekki hægt annað en að vera sáttur við jafntefli gegn Evrópumeisturum á þeirra heimavelli en það verður síðan bara að segjast eins og er að við gátum ekkert í seinni leiknum. Vörn var afskaplega léleg og menn voru einfaldlega ekki nógu grimmir. Við höfum hins vegar æft mjög stíft að undanförnu, æfðum til dæmis átta sinnum á fimm dögum fyrir leikina og menn voru þungir og þreyttir. Það fengu allir að spila og þegar slíkt er uppi á teningnum þá er kannski ekki hægt að búast við toppúrslitum leik eftir leiki. Núna munum við hins vegar létta æfingarnar fram að ólympíuleikum og stefnum að því að vera í toppformi þar," sagði Guðmundur sem velur endanlegan fimmtán manna hóp fyrir ólympíuleikana á morgun. Þýskaland-Ísland 27-27 Mörk Íslands: Ólafur Stefánsson 6, Jaliesky Garcia 6, Guðjón Valur Sigurðsson 5, Sigfús Sigurðsson 3, Róbert Gunnarsson 2, Dagur Sigurðsson 2, Gylfi Gylfason 2 og Rúnar Sigtryggsson 1. Varin skot: Guðmundur Hrafnkelsson 18/2. Þýskaland-Ísland 32-25 Mörk Íslands: Ólafur Stefánsson 6, Jaliesky Garcia 5, Snorri Steinn Guðjónsson 3, Róbert Gunnarsson 3, Guðjón Valur Sigurðsson 3, Einar Örn Jónsson 2, Gylfi Gylfason 2, Dagur Sigurðsson 1. Varin skot: Birkir Ívar Guðmundson 10, Roland Valur Eradze 7.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×