Sport

Palios segir af sér

Mark Palios framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins sagði af sér í gærkvöldi. Afsögn hans tengist kynlífshneykslismáli sem kom upp eftir að í ljós kom að bæði Palios og Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga, höfðu átt vingott við Fariu Alam einkaritara sem vann hjá knattspyrnusambandinu. Knattspyrnusambandið neitaði í fyrstu blaðafréttum um að Eriksson hefði átt í sambandi við Alam en þurfti síðar að gangast við þeim og staðfesta einnig að Palios hefði átt í ástarsambandi við Alam. Colin Gibson, fjölmiðlafulltrúi knattspyrnusambandsins, reyndi að fá blaðið News of the world til að halda leyndu sambandi Palios og Alam en um leið að greina frá sambandi Eriksson við konuna. Gibson hefur boðist til að segja af sér. Staða Svens Görans Eriksson er talin hafa styrkst með afsögn Palios en háværar kröfur voru um að hann ætti að segja af sér. David Davies, tók við starfi framkvæmdastjóra knattspyrnusambandsins í gærkvöldi. Hann vill halda í Eriksson. Sérstakur stjórnarfundur um framtíð Svíans verður haldinn á fimmtudag og þá ræðst hvort hann verður áfram hjá sambandinu en Eriksson endurnýjaði samning sinn í vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×