Sport

Dómari skaut þjálfara

Suðurafrískur knattspyrnudómari tók um síðustu helgi af allan vafa um að knattspyrna er leikur upp á líf og dauða. Gult spjald sem leikmaður fékk að líta í leik tveggja nágrannaliða í Höfðaborg var mótmælt af þjálfara og leikmönnum. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema að í þetta sinn urðu mótmælin að slagsmálum sem dómarinn gerði út um með byssukúlu. Hann skaut þjálfara til bana og særði tvo leikmenn að auki þegar þeir veittust að honum. Þjálfari Marcello, annars liðsins, fékk kúlu í brjóstið og lést á knattspyrnuvellinum og tveir leikmenn liðsins særðust á hendi af völdum sömu kúlu, að sögn South African Press Association. "Það kom til átaka og dómaranum varð ógnað þegar liðsmenn annars liðsins nálguðust hann öskureiðir," sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Mali Govender, sem vinnur að málinu og bætti við: "Þannig að hann dró upp byssu og drap þjálfara gestaliðsins." Enn hefur nafn dómarans ekki verið gert opinbert en hann flúði vettvang glæpsins. Lögreglan er sannfærð um að hún muni fljótlega hafa hendur í hári hans og mun hann sæta ákæru fyrir morð og tvær morðtilraunir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×