Sport

300 hestar á Íslandsmótinu

Þrjú hundruð hestar öttu kappi á Íslandsmóti í hestaíþróttum sem fram fór um helgina í Keflavík. Fréttastofan stóðst ekki mátið og kom við til að skoða besta hestakost landsins. Margar stjörnur af nýafstöðnu landsmóti hestamanna mættu á svæðið, og nýjar stjörnur létu ljós sitt skína. Hin þekkta hestakona Olil Amble og Suðri frá Holtsmúla voru efst eftir forkeppni í fjórgangi meistara og sigruðu örugglega í þeim flokki. Hinrik Bragason og Skemill frá Selfossi sigruðu í meistaraflokki í fimmgangi og Björn Jónsson og Lydía frá Vatnsleysu léku sama leikinn og á Landsmóti hestamanna á Hellu fyrir skömmu og urðu langefst í meistaraflokkstölti. Það sem gerir mótið sérstaklega skemmtilegt fyrir hinn almenna hestamann er að þar eru ekki bara meistaraknapar að keppa heldur er einnig keppt í opnum flokkum svo allir ættu að geta reynt sig, séu þeir sæmilega ríðandi á annað borð. Enda var aðsóknin gríðarlega mikil. Margeir Þorgeirsson, formaður hestamannafélagsins Mána, segir 350 skráningar hafa verið á mótinu og sumir hafi keppt í tveimur flokkum. Hrossin hafi því verið um 300 talsins. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×