Sport

Meistaramótið í frjálsum

Fyrri dagur Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum fór fram á Laugardalsvelli í gær. Blíðskaparveður var og allar aðstæður hinar bestu. Á Þessum fyrri keppnisdegi bar hæst Íslandsmet Sunnu Gestsdóttur úr UMSS í 100 metra hlaupi. Sunna hljóp á 11,63 sekúndum en hún átti gamla metið sem var 11,76. Glæsilegur árangur hjá henni sem sýnir að hún á fullt inni. Ólympíulágmarkið er 11,40 sekúndur og hver veit hvað Sunna gerir á næstunni en hún vann tvenn gullverðlaun því hún varð einnig hlutskörpust í langstökki með nýju mótsmeti, 6,17 metra stökki. Það voru fleiri sem fóru heim með tvenn gullverðlaun. Jón Arnar Magnússon sigraði í stangarstökki og fór yfir 4,79 m, sigraði hann einnig í 110 metra grindarhlaupi. Silja Úlfarsdóttir fékk líka tvö gull, sigraði í 100 metra grindahlaupi á 14,36 sekúndum og í 400 metrunum, en hún kom í mark á 57,19 sekúndum. Fyrirfram var þó mesta spennan fyrir spjótkastskeppni kvenna enda hafa þær Vigdís Guðjónsdóttir úr HK og Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni, verið að gera einkar góða hluti að undanförnu. Ásdísi vantar til að mynda ekki nema 49 sentimetra upp á ólympíulágmark en það gekk þó ekki að þessu sinni. Hvorug þeirra náði sér á strik og voru báðar langt frá ólympíulágmarkinu sem er 56 metrar. Svo fór að Vigdís hrósaði sigri en hún kastaði 50,68 metra en Ásdís varð önnur með 49,21 metra kasti. Báðar eiga töluvert mikið inni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×