Sport

Jafntefli við England í kvöld

Íslensku stelpurnar í 21 árs landsliðinu gerðu 1–1 jafntefli við England í fyrsta leik sínum á opna Norðurlandamótinu í knattspyrnu sem fram fer þessa dagana víðsvegar um Norðurland. Enginn leikur á mótinu má enda án sigurvegara og því var gripið til vítaspyrnukeppni í lok leiksins og þar höfðu íslensku stelpurnar betur, 6–5. Bæði lið fá samt sem áður bara stig út úr leiknum en verði liðin jöfn í lok riðlakeppninnar þá verður íslenska liðið ofar þökk sé sigrinum í vítakeppninni í gær. „Við fengum lítinn tíma til að undirbúa okkur og því var það ákveðið innan liðsins að taka bara einn leik fyrir í einu. Það var markmiðið fyrir þennan leik að taka að minnsta kosti eitt stig út úr þessum leik og það tókst,“ sagði Þóra Björg Helgadóttir, markvörður og fyrirliði íslenska liðsins. Þóra kom heldur betur við sögu í vítakeppninni í lok leiksins því hún skoraði sjálf úr einni spyrnu og varði síðan lokaspyrnu enska liðsins og tryggði íslenska liðinu sigur. Hún fór þó ekki úr hönskunum eins og portúgalski markvörðurinn á EM. Enska liðið komst yfir í leiknum á 28. mínútu en Nína Ósk Kristinsdóttir jafnaði leikinn á lokamínútu fyrri hálfleiks. Nína fékk þá frábæra sendingu frá Ernu Björk Sigurðardóttur og skoraði laglega. Erna Björk átti mjög góðan dag og var besti leikmaður íslenska liðsins ásamt Pálu Marie Einarsdóttur. Enska liðið fékk tækifæri til að stela sigrinum í lokin en skutu yfir úr mjög góðu færi. Íslenska liðið spilar næst við Danmörku á Akureyri á sunnudaginn en dönsku stelpurnar töpuðu 0–2 fyrir þeim sænsku í hinum leiknum í íslenska riðlinum í gær. Í hinum riðlinum fóru hin geysisterku lið Bandaríkjanna og Þýskalands vel af stað og unnu örugga sigra. Baráttan um sigurinn á mótinu stendur líklega á milli þeirra tveggja. Ísland-England 1-1 0–1 Vicky Gallagher 27. 1–1 Nína Ósk Kristinsdóttir 45. Best á vellinum Erna Björk Sigurðardóttir Íslandi Tölfræðin Skot (á mark)  9–10 (4–6) Horn 2–6 Aukaspyrnur fengnar 10–10 Rangstöður 1–5 Mjög góðar hjá Íslandi Erna Björk Sigurðardóttir Breiðabliki Pála Marie Einarsdóttir Val  Góðar hjá Íslandi Þóra Björg Helgadóttir Kolbotn Margrét Lára Viðarsdóttir ÍBV Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir Breiðabliki Vítaspyrnukeppnin: 1–0  Margrét Lára Viðarsdóttir 1–1 Kelly McDougal 2–1 Dóra María Lárusdóttir 2–2 Eniola Aluko 3–2 Erla Steinunn Arnardóttir 3–3 Jessica Wright 4–3 Elín Anna Steinarsdóttir 4–4  Alexandra Scott 5–4  Þóra Björg Helgadóttir 5–5 Ann-Marie Heatherson 6–5  Erna Björk Sigurðardóttir –  Þóra Björg ver víti Anitu Asante Úrslitn á mótinu í gær:A-riðill Danmörk–Svíþjóð 0–2 Ísland–England 1–1 B-riðill Bandaríkin–Finnland 3–0 Noregur–Þýskaland 1–3



Fleiri fréttir

Sjá meira


×