Sport

Loksins komust FH á toppinn

FH-ingar fögnuðu ekki bara þremur stigum í húsi eftir 1-0 sigur þeirra á Fylki í fyrrakvöld því þeir voru einnig komnir í toppsæti Landsbankadeild karla í fyrsta sinn í rúmlega níu ár eða síðan þeir voru í efsta sætinu eftir aðra umferð 1995. Þetta var þriðji leikurinn í röð þar sem FH-liðið fékk tækifæri til að komast alla leið á toppinn og nú tókst það loksins. FH hafði verið 20 sinnum meðal efstu þriggja liða frá því að þeir komu aftur upp í efstu deild fyrir fjórum árum, þar af 11 sinnum í öðru sætinu en nú fóru þeir loksins alla leið í toppsætið. FH-ingar náðu líka fram hefndum gegn Fylkisliðinu sem hefur strítt þeim oft og mikið í gegnum tíðina. Fylkir var sem dæmi eina liðið sem var búið að vinna FH í sumar auk þess sem Árbæingar höfðu unnið fimm síðustu deildarleiki liðanna með markatölunni 11-2. Nú tók FH hinsvegar toppsætið af Fylki en það voru einmitt Fylkismenn sem komu í veg fyrir það fyrir 15 árum að FH-ingar yrðu Íslandsmeistarar. Fylkir vann þá leik liðanna í 18. og síðustu umferð Íslandsmótsins og færði KA-mönnum titilinn en með sigri hefði FH orðið Íslandsmeistari í fyrsta og eina skiptið. Þess í stað endaði FH í öðru sæti líkt og þeir gerðu á bæði Íslandsmótinu og í bikarkeppninni í fyrra og hafa auk þess gert tvisvar til viðbótar síðan þá. Stóru titlarnir hafa hvorugir komið í hús og það er ljóst að FH-ingar stefna beina leið að því að bæta snarlega úr því í sumar. Það var ekki bara að FH-ingar kæmust í toppsætið í fyrsta sinn því þeir náðu öðru stóru takmarki í umræddum sigurleik á Fylki. FH-liðið setti félagsmet með sigri á Fylki því þetta var níundi deildarleikur liðsins í röð án taps. Þetta er lengsta taplausa hrina liðsins á einu tímabili í tíu liða efstu deild en FH-liðið hafði mest náð að spila átta leiki í röð án þess að tapa. Þeim árangri náði Hafnarfjarðarliðið sumrin 1989 og 1993 en bæði þessi ár endaði liðið í 2. sæti á Íslandsmótinu. FH hefur reyndar einu sinni leikið fleiri leiki í röð án þess að tapa því þeir spiluðu alls tíu leiki í röð frá 1993-94 án þess að bíða ósigur, léku átta síðustu leiki sína 1993 og svo tvo þá fyrstu sumarið eftir án þess að lúta í gras. Það góða við stöðu FH-ingar eru að þeir eru búnir með báða leikina gegn KR og Fylki og útileikinn við Skagamenn en fyrirfram var álitið að þessi þrjú lið myndu berjast við þá um titilinn. FH-liðið á reyndar eftir að fara til Eyja en að öðru leyti gefur leikjadagskrá liðsins fulla ástæðu til mikillar bjartsýni. Íslandsmeistarabikarinn er líklegur til að vera á leiðinni í Fjörðinn í fyrsta sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×