Sport

Vala hefur ekkert keppt

Vala Flosadóttir stangarstökkvari, sem fékk bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Sidney fyrir fjórum árum, hefur enn ekkert keppt það sem af er þessu ári vegna meiðsla og hún verður ekki með á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fer um næstu helgi. Að sögn Guðmundar Karlssonar, landsliðsþjálfara í frjálsum íþróttum, tognaði Vala enn og aftur aftan í læri og verður hún ekki tilbúin í Meistaramótið. Guðmundur reiknar með því að Vala verði með í bikarkeppni frjálsíþróttasambandsins sem fram fer 6. og 7. ágúst. Það verður síðasti möguleiki Völu Flosadóttur til þess að komast á Ólympíuleikana í Aþenu í næsta mánuði því frestur til að ná Ólympíulágmörkum rennur út 9. ágúst. Ólympíulágmarkið í stangarstökki kvenna er 4,40 metrar en Vala hefur verið talsvert frá því undanfarin misseri. Hún á hins vegar best 4,50 metra sem tryggði henni bronsið á ÓL í Sidney fyrir fórum árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×