Sport

FH-ingar spila í Wales í kvöld

FH sækir velska liðið Haverfordwest AFC heim í kvöld í forkeppni UEFA-bikarsins í knattspyrnu. Þótt Velska deildarkeppnin sé líklega sú lægst skrifaða á Bretlandseyjum er lið Haverfordwest, sem hafnaði í 3. sæti úrvalsdeildarinnar sem lauk í byrjun maí sl., að hluta atvinnumannalið og aðstæður allar hinar bestu. Liðið spilar heimaleiki sína á Ninian Park, heimavelli Cardiff City í ensku 1. deildinni, en sá leikvangur tekur 20 þúsund manns í sæti. Ekki er þó búist við nema um þúsund manns á völlinn þegar FH-ingar koma í heimsókn. Fréttablaðið sló á þráðinn til Heimis Guðjónssonar, fyrirliða FH, og segir hann liðið vera vel stemmt og klárt í slaginn. "Við höfum tekið eina æfingu á vellinum og þetta er algjör toppvöllur. Mér skilst að þeir séu með líkamlega sterkt lið og spili grimman bolta en það hefur verið stígandi í okkar leik og við munum byggja á því," segir Heimir. Aðspurður segir hann að undirbúningi fyrir leikinn verði hagað á mjög svipaðan hátt og um deildarleik sé að ræða. "Það er vissulega mjög gaman að fara út og spila við lið sem við þekkjum ekki en við ætlum að reyna að spila eins og við erum vanir. Við munum kannski fara varfærnislega inn í leikinn og sjá hvað þeir geta og ef við sjáum að þeir hafa einhverja veikleika þá munum við að sjálfsögðu reyna að bregðast við því. Það eru nokkrar vikur síðan deildarkeppninni hjá þeim lauk á meðan við eigum að vera í toppformi og það hjálpar vissulega. Það skiptir miklu máli að ná hagstæðum úrslitum á útivelli," segir Heimir. Þetta er fyrri leikur liðanna sem fram fer í kvöld en liðin munu mætast aftur í Kaplakrika í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×