Sport

Jafntefli hjá Fylki og ÍA

Einn leikur fór fram í Landsbankadeild karla í gærkvöldi. Fylkir og ÍA skildu jöfn í Árbænum, 2-2. Skagamenn komust yfir eftir rúmlega hálftíma leik með marki frá Grétari Rafni Steinssyni og Haraldur Ingólfsson kom þeim svo í 2-0 á 44. mín.Skagamenn virtust vera á góðri leið með að tryggja sér öll þrjú stigin í leiknum en Fylkismenn gáfust ekki upp. Um níu mínútum fyrir leikslok minnkuðu þeir muninn með marki Ólafs Stígssonar og Ólafur Páll Snorrason jafnaði svo á 87. mínútu eftir að Þórður  Þórðarson, markvörður Skagamanna, varði vítaspyrnu frá Finni Kolbeinssyni. Fylkismenn eru í efsta sæti með 18 stig og hafa nú tveggja stiga forskot á FH-inga. Skagamenn eru í þriðja sæti með 13 stig. Tveir leikir fara fram í kvöld í Landsbankadeild karla. Víkingur og Grindavík mætast í Víkinni og Keflvíkingar taka á móti Fram. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19:15 Í 2. deild karla fara fram tveir leikir. Víkingur Ólafsvík mætir Leikni og Tindastóll tekur á móti Leiftri/Dalvík. Báðir leikirnir hefjast klukkan 20.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×