Sport

Mourinho byrjaður að rífa kjaft

Hinn ákveðni knattspyrnustjóri Chelsea, Jose Mourinho, sendi Arsene Wenger, stjóra Arsenal, og Sir Alex Ferguson, stjóra Man. Utd, skýr skilaboð um að þeim sé hollara að vera ekki með neina stæla í vetur. "Ef þeir snerta mig ekki þá mun ég ekki snerta þá," sagði Mourinho við breska blaðamenn í gær. "En ef þeir snerta mig þá mun ég slá fast til baka. Annars kom ég ekki hingað til þess að standa í slagsmálum." Mourinho var nú samt ekkert að víla fyrir sér að æsa Sir Alex upp síðasta vetur er hann mætti United með Porto í Meistaradeildinni. Þá var hann yfirlýsingaglaður í fjölmiðlum og hafði reyndar efni á því þar sem Porto rúllaði United upp. Bresku blöðin bíða nú spennt eftir viðbrögðum Wengers og Fergusons við þessum ummælum en flestir eru á því að ástæðan fyrir þessari yfirlýsingu sé sú að prófa Wenger og Fergie. Mourinho vilji sjá hvernig þeir bregðist við slíku þegar enn er rúmur mánuður í mót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×