Sport

Brisport í Hólminn

Miðherjinn öflugi Leon Brisport, sem lék með Þór Þorlákshöfn í Intersportdeildinni í körfuknattleik á síðasta tímabili, hefur gert munnlegt samkomulag um að leika með Snæfelli í deildinni á komandi tímabili. Bárður Eyþórsson, þjálfari Snæfells, staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið í gærmorgun en lét þess þó jafnframt getið að ekki værið búið að ganga endanlega frá samningi við Brisport. Bárður sagði að Brisport, sem skoraði 23 stig og tók 13,7 fráköst að meðaltali í leik í fyrra, myndi styrkja lið Snæfells mikið enda væri þar á ferðinni öflugur leikmaður sem hefði sýnt mikinn karakter og dungað með Þór í fyrra. Snæfell er einnig á höttunum eftir erlendum bakverði og sagði Bárður að þau mál myndu skýrast á næstu dögum. Þar með er víst að þeir þrír erlendu leikmenn, Dondrell Whitmore, Corey Dickerson og Edmund Dotson, sem léku með liðinu á síðasta tímabili, munu ekki snúa til baka í Hólminn. Snæfell hafði áður fengið landsliðsmennina Magna Hafsteinsson frá KR og Pálma Frey Sigurgeirsson frá Breiðabliki til liðs við sig en mun að öllum líkindum missa Hafþór Gunnarsson í Borgarnes á nýjan leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×