Sport

Flestir Þjóðverjar vilja Rehhagel

Þjóðverjinn Otto Rehhagel, sem náð hefur frábærum árangri með gríska landsliðið á Evrópumótinu í Portúgal, er vænlegasti kosturinn sem landsliðsþjálfari Þýskalands að mati landa hans í könnun sem þýska sjónvarpsstöðin RTL lét gera. Rudi Völler sagði starfi sínu lausu strax eftir að Þjóðverjar duttu út og eftir að Ottmar Hitzfeld, fyrrum þjálfari Bayern München, afþakkaði starfið telja 38% þeirra sem þát tóku að Rehhagel sé rétti maðurinn í starfið. Næstur á eftir honum kom hinn umdeildi Christoph Daum, sem þjálfar tyrkneska liðið Fenerbahce, með 14% en hann átti að taka við landsliðinu eftir EM fyrir fjórum árum en missti starfið eftir að hafa orðið uppvís af neyslu kókaíns. Lothar Matthaus, sem þjálfar ungverska landsliðið í dag, kom síðan í þriðja sæti. Rehhagel hefur neitað að tjá sig um þýsku landsliðsþjálfarastöðuna þegar hann hefur verið spurður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×