Sport

Portúgalar ekki í hefndarhug

Portúgalski miðjumaðurinn Maniche, sem hefur átt frábært Evrópumót og meðal annars skorað tvö mörk, sagði á blaðamannafundi í gær að Portúgalar litu ekki á að þeir ættu harma að hefna gegn Grikkjum í úrslitaleiknum í dag þrátt fyrir að hafa tapað fyrir þeim í opnunarleik mótsins. "Við erum ekki í hefndarhug. Við Portúgalar eru vinaleg þjóð sem hugsar ekki um hefnd. Þessi leikur verður ekki endurtekning á þeim fyrri. Við berum mikla virðingu fyrir gríska liðinu sem eiga, líkt og við, fyllilega skilið að spila til úrslita. Það er erfitt að spila gegn Grikkjum, þeir eru skipulagðir, sterkir varnarlega og hættulegir í skyndisóknum en við verðum einfaldlega að spila eins og við höfum spilað í síðustu þremur leikjum. Við verðum að vera þolinmóðir, rólegir og gera hlutina á réttan hátt. Það verður erfitt að brjóta grísku vörnina á bak aftur en við þurfum að skora og sjá til þess að við gerum engin mistök," sagði þessi snjalli miðjumaður en hann er einn marga leikmanna Porto í portúgalska liðinu sem eltist við að vinna ótrúlega tvennu, meistaradeildina og Evrópumótið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×