Innlent

Umboðsmaður vísar frá kvörtun

Umboðsmaður Alþingis hefur vísað frá kvörtun fréttastjóra Stöðvar 2 og Bylgjunnar vegna ákvörðunar Davíðs Oddssonar forsætisráðherra að neita að svara spurningum fréttastofunnar eftir að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Umboðsmaður telur það utan síns starfsviðs að taka afstöðu til athafna, eða athafnaleysis, ráðherra og alþingismanna. Sigríður Árnadóttir, fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar, sendi umboðsmanni kvörtun 8. júní sl. eftir að forsætisráðherra hafði ítrekað neitað að svara spurningum fréttamanna Stöðvar 2 af „einstæðum viðburði í sögu lýðveldisins, viðbrögðum sem vörðuðu alla þjóðina“, eins og segir í bréfi Sigríðar. Þar vísar hún til þess að 2. júní hafi forseti synjað fjölmiðlalögunum staðfestingar og síðan hafi fréttamenn Stöðvar 2 falast eftir viðbrögðum forsætisráðherra en því verið hafnað. Síðdegis sama dag hafi svo verið auglýst opinberlega að Davíð Oddsson yrði til svara í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Þá hafi verið enn og aftur óskað eftir að forsætisráðherra svaraði spurningum Stöðvar 2 en því verið hafnað. Í bréfi fréttastjóra til umboðsmanns er vísað til þess að umboðsmaður danska þjóðþingsins hafi fundið að því að forsætisráðherra Danmerkur gerði upp á milli fjölmiðla þar í landi. Umboðsmaður Alþingis bendir á að í því tilfelli hafi danski forsætisráðherrann gefið einum fjölmiðli afrit af ræðu en neitað öðrum fjölmiðli. Þar hafi því verið um aðgang að opinberu skjali að ræða en ekki viðbrögð í formi viðtals, einsog í tilfelli Davíðs. Meginniðurstaða umboðsmanns Alþingis er að óskað hafi verið eftir viðbrögðum Davíðs vegna „stjórnmálalegrar stöðu ráðherra“ en á þeim tíma hafi ríkisstjórn ekki tekið neina formlega afstöðu í málinu. Hann telur það falla utan við hlutverk sitt að taka afstöðu til athafna - eða í þessu tilviki athafnaleysis - ráðherra, sem einungis geti talist hluti af stjórnmálastarfi hans. Því telur hann að kvörtunin falli utan lögmælts hlutverks umboðsmanns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×