Sport

Blanc og Tigana líklegastir

Eins og alþjóð er kunnugt hætti Jaques Santini þjálfun franska knattspyrnulandsliðsins eftir EM í Portúgal en hann var búinn að tilkynna um þá ákvörðun fyrir keppnina og að hann myndi taka við enska úrvalsdeildarliðinu Tottenham Hotspur. Víst er að Santini hefði verið látinn fara hefði hann ekki verið búinn að tilkynna þetta því árangur Frakka á EM var ömurlegur. Nú er leitað logandi ljósi að eftirmanni Santinis og tveir fyrrverandi landsliðsmenn eru þar helst nefndir til sögunnar - þeir Laurent Blanc og Jean Tigana.Tigana þykir líklegri því hann er talsvert reyndur þjálfari og var meðal annars við stjórnvölinn hjá enska úrvalsdeildarliðinu Fulham. Laurent Blanc er á hinn bóginn reynslulaus sem þjálfari en afar virtur í franska knattspyrnuheiminum og háttsettir menn þar hafa mikla trú á honum sem arftaka Santinis. Fordæmi eru fyrir því að reynslulaus maður taki við landsliði hjá stórþjóð. Rudi Völler tók við þýska landsliðinu árið 2000 án þess að hafa þjálfað áður og það virkaði vel því hann fór alla leið með liðið í úrslitaleik HM 2002 þar sem liðið beið lægri hlut gegn Brasilíumönnum.Ákvörðun Frakka mun væntanlega liggja fyrir um miðjan næsta mánuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×